Barna- og unglingastarf í Golfklúbbi Öndverðarness
Rekja má upphafið að unglingastarfinu í Öndverðarnesi til ársins 1977. Það ár var spilað um nýliðabikarinn í fyrsta sinn og gátu börn og unglingar tekið þátt þar sem leikið var af fremri teigum.
Unglingastarfið hófst svo af krafti árið 1982 en þá gáfu Einar Einarsson og Stefán Gunnarsson unglingaskjöldinn sem var keppt um næstu 20 árin.
Á þessum fyrstu árum í mótahaldi Golfklúbbs Öndverðarness voru unglingamótin stór liður í starfi kappleikjanefndar.
Það vakti einatt athygli hvað formaðurinn, Gísli Dagsson og Friðrik Andrésson stjórnarmaður voru duglegir við að hvetja börnin og unglingana til þátttöku. Það kom m.a. fram í því að í flestum stóru mótunum sem haldin voru, þá settu þeir alltaf upp unglingaflokk þar sem keppt var um sér verðlaun.
Mót sem vöktu áhuga unglinganna voru t.d. Stóra GÖ, Jónsmessumótið, þjóðhátíðarmótið og mörg fleiri þar sem settur var upp unglingaflokkur samhliða karla- og kvennaflokki. Þessi elja þeirra við að halda úti jafn sterku unglingastarfi og raun bar vitni þótti aðdáunarverð einkum þar sem þeir voru barnlausir og voru ekki að gæta hagsmuna sinna eigin barna og unglinga. Einar Einarsson var síðan sá sem stjórnaði kappleikjanefndinni lengst af og studdi alla tíð ákaflega vel við unglingastarfið langt fram yfir aldamót.
Á þessum árum vakti unglingastarfið í Öndverðarnesi víða athygli fyrir það hversu öflugt það var. Þarna ólust upp og hófu keppni margir einstaklingar í stúlkna og strákaflokki sem áttu eftir að gera sig gildandi í meistaraflokks golfinu á Íslandi.
Á síðustu árum hefur verðið rólegra yfir unglingastarfinu. Þó hafa nokkrar tilraunir verið gerðar með sérstök unglingamót en svo virðist vera að stóru klúbbarnir á höfuðborgarsvæðinu sjái alveg um þarfir krakkana í þeim efnum. Í dag taka unglingarnir í Öndverðarnesi þátt í mótum og spila í opnum flokki.



