Félagsstarfið í Öndverðarnesi
Það segja margir að það hafi verið einstakt lán fyrir múrarameistarafélagið og sveinafélag múrara að kaupa saman orlofsjörðina Öndverðarnes.
Strax frá upphafi völdu sveinar og meistarar að sameinast um að gera hlutina í Öndverðarnesi með glæsibrag. Það þótti ekki alveg sjálfgefið á þessum árum að vinnuveitandinn, sem voru í þessu tilfelli meistararnir og múrararnir sem unnu hjá þeim næðu saman utan vinnutíma við að leika sér og framkvæma jafn stórkostlega hluti og raunin hefur orðið á í Öndverðarnesi. Sumir segja líka að þessi góðu tengsl hafi orðið til þess að auðvelda samninga um laun og kjör milli aðila.
Eitt af aðal verkefnunum sem sem múrararnir snéru sér að var að byggja upp góðan golfvöll fyrir fólkið í sumarbústöðunum í Öndverðarnesi. Með tilkomu golfvallarins var stuðlað að miklu samneyti sumarbústaðaeigenda. Strax frá byrjun var það svo að þegar komið var út á golfvöll, voru allir jafnir í virðingarstiganum, hvort sem þeir voru launamenn eða meistarar.
Á fyrstu árum klúbbsins var mótahaldið einkum fólgið í því að karlarnir komu saman og skelltu sér út á golfvöll. Fljótlega breyttist sú tilhögun og komu konurnar fljótlega inn í starfið og svo börnin og unglingarnir einnig. Það var oft mikið fjör og gaman í gamla skálanum og ekki minnkaði það þegar golfskálinn var tekinn í notkun árið 1994 við Öndverðarnesbæinn.
Árið 2009 var nýr og endurnýjaður golfskáli tekinn í notkun, þar sem Sigurður Heimir formaður meistarafélags múrara var aðal driffjöður verkefnisins. Þá eins og oft áður tóku félagarnir í klúbbnum mikinn þátt í að gera verkefnið að veruleika. Golfskálinn eða golfmiðstöðin var nú orðin miðpunktur alls félagsstarfs í Öndverðarnesi.
Segja má að eftir að svæðið var opnað fyrir öðrum en múrurum hafi forsendur breyst í þá veru að nú var hægt að halda fjölmennar skemmtanir, eins og jólahlaðborð og þorrablót svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa einnig verið haldnar 200 manna matar veislur í tengslum við verðlaunaafhendingu móta. Golfklúbburinn er enn í dag kjarninn í félagsstarfinu í Öndverðarnesi þar sem jafnt ungir sem gamlir geta notið samvista við annað fólk á svæðinu.


