Mikilvæg framlög fyrstu árin
Á fyrstu árum golfklúbbsins komu múrarafélögin tvö sem keyptu landið sem orlofssvæði mjög mikið við sögu í uppbyggingu og rekstri golfvallarins. Þessi stuðningur kom m.a. fram í því að Öndverðarnesnefndin, sem var oftast var skipuð sömu mönnum og voru í forsvari fyrir golfklúbbinn tók þátt í flestum af uppbyggingarverkefnunum sem unnin voru á golfvellinum.
Stuðningur múrarafélaganna fólst einnig í því að leggja til vinnu starfsmanna sem ráðnir höfðu verið til starfa hjá Öndverðarnesnefndinni, þar sem golfvöllurinn var stór hluti af afþreyingu gesta sem heimsóttu orlofssvæðið.
Þessi góða samvinna tók einnig yfir vélakost. Öndverðarnesnefndin keypti gjarnan stærri og dýrari tækin og naut golfklúbburinn góðs af og fékk afnot af þeim, oftast gegn einhverju vinnuframlagi við umhirðu og slátt t.d. við sundlaug, tjaldstæði og leiksvæði svo eitthvað sé nefnt.
Smátt og smátt minnkuðu þessi framlög til samrekstrar og á síðustu 10 - 15 árum hafa verið miklu skarpari skil á milli reksturs Öndverðarness og golfklúbbsins.
Hér má ekki gleyma stöndugu fyrirtækjunum sem múrararnir áttu í viðskiptum við. Fyrirtæki sem þar komu við sögu voru m.a. BM Vallá, Steypustöðin, Sandur, Húsasmiðjan, Byko og mörg fleiri.
Sjálfboðavinna
Golfklúbbur Öndverðarness hefði aldrei orðið að veruleika nema vegna mikils og óeigingjarns framlags fólksins í Öndverðarnesi. Sjálfboðavinnan náði langt út fyrir meðlimi golfklúbbsins því sumarbústaðaeigendur voru meira en til í að leggja sitt af mörkum til að skapa betra og fallegra umhverfi í kringum sig.
Mest öll vinna við uppbyggingu golfvallarins fyrstu 40 árin var unnin í sjálfboðavinnu.
Þetta frábæra vinnuframlag fólksins í Öndverðarnesi var í byrjun í formi uppbyggingar á flötum og teigum, þar sem verkin voru unnin með haka, hrífu og skóflu. Algengt var að þegar undirbúin var vinna undir torf á flötum og tyrfa þurfti strax í framhaldinu þá voru gjarnan mættir 20 - 30 einstaklingar til að vinna verkið sem kláraðist hratt og vel.
Rétt er að minnast líka á byggingu sundlaugarinnar, sem er partur af heildarupplifun sumarhúsaeigenda í Öndverðarnesinu - þar var allt unnið í sjálfboðavinnu.
Bygging fyrsta golfskálans árið 1977 var unnin í sjálfboðavinnu og bygging núverandi golfskála eða réttara sagt golfmiðstöðvarinnar var að stóru leyti unnin í sjálfboðavinnu.
Eftir að golfklúbburinn komst í álnir og styrkti tekjustofna sína, hefur sjálfboðavinnan við uppbyggingu og breytingar á golfvellinum horfið að miklu leyti. Vinnudagurinn í maí lifir þó ennþá góðu lífi.

Tekjurnar fyrstu árin og breyttar forsendur seinni ára
Í upphafi var ekki miklum tekjum til að dreifa. Tekjurnar á fyrstu árunum byggðust aðallega upp á félagsgjöldum, sem voru lág. Þar var jafnan miðað við að sumarhúsaeigendur í Öndverðarnesi ættu kost á því að borga helmingi lægra gjald en kylfingar í GR þurftu að borga. Gjaldið í Öndverðarnesi var hjónagjald og var það á fyrstu árunum mjög hvetjandi til að fá konur til að byrja í golfi. Börn og barnabörn sumarbústaðaeigenda spiluðu frítt til 16 ára aldurs.
Fljótlega breyttust þó tekjustofnanir. Félagsgjöldin hafa alltaf verið að styrkjast sem tekjustofn og svo bættust við tekjur af mótahaldi og flatargjöldum. Þessir tekjupóstar voru á fyrstu árunum oftast u.þ.b. jafnir eða með um þriðjung hver.
Auglýsingatekjur og styrkir frá fyrirtækjum voru ekki endilega færðir til bókar. Mikið af þessum stuðningi kom fram í því að steypan, sandurinn eða mölin var gefin og skilað á staðnum í viðkomandi verk sem verið var að vinna, oft fyrir góðra manna orð.
Segja má að frá því að Öndverðarnesnefndin og múrarafélögin ákváðu að opna orlofssvæðið fyrir almenningi hafi orðið gjörbreyting á tekjumöguleikum klúbbsins. Félögum í klúbbnum fjölgaði um helming og golfmótin urðu fjölmennari m.a. þar sem golfklúbburinn gekk í Golfsambandið árið 1998. Þetta þýddi að hægt var að halda opin mót sem voru mörg hver mjög vel sótt og tekjur því góðar.
Á síðustu árum hafa orðið nokkrar breytingar á samsetningu teknanna. Það skýrist helst af því að styrkir og auglýsingatekjur hafa aukist verulega. Þá hafa hjónagjöldin verið lögð af og félagsgjöldin hækkuð til samræmis við golfklúbba á suðvestur horni landsins.
Alla jafna hefur klúbburinn verið rekinn með hagnaði en þó með örfáum undantekningum. Vélar og tæki hafa yfirleitt verið gjaldfærð við kaup og hefur tækjaeign klúbbsins verið mjög góð síðustu 20 árin. Þegar golfklúbburinn var stækkaður var hluti af stækkuninni eignfærð undir varanlega rekstrarfjármuni, eða sá kostnaður sem lagt var út fyrir eða um 30 m.kr. Sjálfboðavinnan var ekki eignfærð en hún var veruleg.


Starfsmenn
Á fyrstu árum klúbbsins sá umsjónarmaður Öndverðarnesnefndarinnar um að slá völlinn oft með aðstoð bænda í sveitinni. Síðan var ráðinn sumarstarfsmaður fyrir golfklúbbinn sem sá um reksturinn á golfvellinum og að slá flatir og teiga. Umsjónarmaðurinn sá um að slá brautir og röff. Stundum var sami starfsmaður sem sá um völlinn og var umsjónarmaður ásamt maka sínum. Með tímanum var byrjað að ráða starfsmenn sem unnu eingöngu á golfvellinum og aðskilnaður var á milli starfsmanna golfvallar og umsjónarmanns Öndverðarnesnefndarinnar. Verktakar sáu um afgreiðslu í golfskála.
Nýr golfskáli var tekinn í notkun árið 1994 og kallaði það á breytt starfsumhverfi fyrir starfsfólk og verktaka hjá golfklúbbnum. Vinnuaðstaðan breyttist verulega til batnaðar fyrir alla. Í framhaldi af því var farið að ráða fleiri starfsmenn og þegar golfvöllurinn var stækkaður í 18 holur 2008 var ráðinn framkvæmdastjóri og sumarstarfsmenn til að vinna með vallarstjóra. Árið 2011 var ráðinn lærður vallarstjóri í sumarstarf. Árið 2015 var ráðinn vallarstjóri í fullt starf og 2017 var aðstoðarmaður vallarstjóra ráðinn í fullt starf.
Á þessum tíma verða miklar breytingar í starfsmannamálum hjá klúbbnum, sumarstarfsmönnum fjölgar og umsvifin aukast. Á árinu 2023 voru 9 vallarstarfsmenn að meðtöldum vallarstjóra þegar mest var og hafa þeir aldrei verið fleiri. Framkvæmdastjóri í hlutastarfi og skrifstofustjóri. Heilsársstarfsmenn eru nú fjórir. Á síðasta ári voru ráðnir tveir starfsmenn á mestu álagspunktum um helgar til að sjá um að leikmenn staðfesti rástíma og greiði vallargjald.