Úr fundargerðum aðalfundar - Vallarframkvæmdir

  • Völlurinn var mældur upp að nýju vegna nýrra skorkorta sem voru prentuð hjá Fjölprent. Þá var merki klúbbsins betrumbætt. 


  • Ný sláttuvél skilaði sínu en flatarvélin eyðilagðist. Þó var unnt að nota hana með herkjum. Ný flatarvél var pöntuð fyrir næsta sumar. Nýr teigur gerður á 1. Braut. Teigar á 2. og 7. braut voru stækkaðir og nýr teigur á 9. braut gerður vegna lengingar á brautinni.  


  • Gerðar voru glompur á 2. 3. og 6. braut. Byrjað var að lengja 7. brautina og  hún grjóthreinsuð. Teigur á 3. braut var stækkaður og nýr fremri teigur gerður á 4. braut. Þá var mikið unnið að stígagerð og bílaplan stækkað. Óli Kr. Jónsson gaf klúbbnum 15 tré sem gróðursett voru við 1. braut.(nú 4.braut) Þá fékk klúbburinn 50.000 kr. styrk til skógræktar. Gerð var tilraun með vatnsgryfju sem reyndist ekki vel og var hún gerð að sandgryfju. Ráðstöfunarfé golfklúbbsins voru 2 milljónir sem fóru að mestu til vallarframkvæmda. Ráðist var í mikil vélakaup sem olli byltingu í umhirðu golfvallarins. Keypt var ný flatarvél, traktor, tætari, kerruvagn, brautarvél, snærisvél og handsláttuvél. 


  • Grafið var fyrir nýjum flötum og undirlag sett á 1. braut (nú 4. braut) og 6. braut. Stórir bönkerar grafnir við hlið flatanna. Bönker var settu á 3. braut og var hann strax tekinn í notkun. Þá voru settir bekkir á völlinn og ný flögg keypt. Keyptur var áburðardreifari og Snærisvél og slæsvél með golfklúbbi Selfoss. Mikið var gróðursett þetta sumarið á 3. og 7. braut og víðar. Ástráður ásamt nokkrum félögum sáu um það.  Ný lengdarmæling og styttist 9 holurnar um 120 m. og par vallarins er 66 miðað við 18 holur.


  • Golfvöllurinn mældur upp af Samúel Hreggviðssyni og tóku breytingarnar gildi sumarið 1985.

                        Gulir teigar       Rauðir teigar

    1.       hola     288m             218 m               (núverandi 4.braut)

    2.       hola     263m             226m

    3.       hola     164m             147m                

    4.       hola     332m             253m

    5.       hola     472m             412m

    6.       hola     179m             162m

    7.       hola     366m             317m                (núverandi 1.braut áður en hún var lengd)

    8.       hola     122m             107m                (núverandi 2.braut)

    9.       hola     231m             201m                (núverandi 3.braut áður en hún var lengd)

    Samtals       2417 m                       2045m


  • Gerð var ný flöt á 9. braut ( nú 3.braut) og flötin á 5. Braut ( ekki til lengur) var stækkuð. Við þetta lengdist völlurinn um 93 metra. Á 6. Braut (nú 9. braut) var gerður nýr fremri teigur og teigur á 9. braut (nú 3. braut) stækkaður og tyrfður. Í skurðinn sem sker 4. brautina (nú 7. braut) var gerð stífla og skurðurinn hafður sem vatnstorfæra. Lagðar voru vatnslagnir ofan jarðar  að öllum flötum. Þessar framkvæmdir voru unnar af sjálfboðaliðum í klúbbnum og vallarstarfsmanni.  Töluvert fé fór í viðhald véla en ein lítil sláttuvél var keypt.


  • Aftari teigur á 1. braut (nú 4. braut) var stækkaður alveg að húsi og hann tyrfður. Vinna var lögð í hönnum á æfingasvæðinu á Hátúninu. Lagðar voru 4 par þrjú brautir á æfingasvæðinu, flatir slegnar og skornar. Níu brauta minigolfvöllur var settur upp í nálægð við sundlaug og golfskála af Öndverðarnes nefndinni. GÖ lagði til kúlur og púttera.


  • Ræst voru bleytusvæði á 2. og 4. braut ( nú 5. og 7. braut), auk hluta af æfingasvæði á Hátúni. Brýr á milli 4. og 5. braut (7. og 8. braut) hafa yfirleitt skemmst vegna snjóþunga á vetrum. Nú voru þar gerðar stálbita brýr svo þetta vandamál ætti að vera úr sögunni.

  • Völlurinn var í góðu ásigkomulagi. Yfir hásumarið voru flatir slegnar tvisvar í viku en brautir einu sinni. Allir teigar voru yfirfarnir og þeir annað hvort skemmdir lagaðar eða þeir tyrfðir að fullu. Ný og breytt brautarskilti glæsilega útskorin fyrir allar brautir gerði Ásmundur Daníelsson.  Ruslatunnur voru settar við alla teiga en sú krafa var gerð á síðasta aðalfundi. Byrjað var að vinna stækkun á 2. og 8. teig.(nú 5. og 2. braut.) Flötin á 2. braut grafin út og fyllt með ofaníburði og byggð upp.

    Töluverður hiti kemur upp úr 8. flötinn og hefur hún stundum skemmst af þeim sökum. Flötin var því grafin upp og hún einangruð með steinull, síðan fyllt með ofaníburði og hún byggð upp.

    Báðir teigar á brautum 2,5 og 7 voru stækkaðir og nýr fremri teigur á 4. braut byggður upp (sá sami og nú er notaður á 7. braut)

    Nokkrar skemmdir urðu á vellinum vegna borunar á hitaveituholum  á 5. og 9. braut. Öndverðarnesnefndin veitti klúbbnum nokkurn styrk til þess að laga borholu skemmdirnar. Lokið var við vökvunarkerfi ofanjarðar við alla teiga og flatir.

    Stærstu rekstrarliðir lágu í viðhaldi véla sem eru orðnar gamlar. M.a. þurfti að gera upp brautarslátturvélina. Notaður sendibíll var keyptur sem auðveldar öll aðföng að vellinum


  • Item descripÍ fyrra var unnið við að endurgera flatir á 2. og 8. braut.

    Einnig  hófust framkvæmdir við  nokkra teiga.  Á þessu ári var lokið við framkvæmdirnar og var það unnið í sjálfboðavinnu. Fjöldi félagsmanna mætti allar helgar í apríl og maí og mættu 40-50 manns þegar best lét.

    Kostnaður við framkvæmdirnar var því eingöngu  efniskostnaður sem var 700.000 kr.  

    Unnið var við að endurbæta æfingarsvæðið. Æfingasvæðið er mjög vinsælt og minnkar það álag á vellinum.Flatir voru yfirleitt slegnar tvisvar í viku og brautir einu sinni.

    Vinnudagur var haldinn í vitlausu veðri en samt komu á milli 30-40 félagsmenn og unnu við að undirbúa völlinn fyrir sumarið.

  • Aðeins var farið í viðhaldsframkvæmdir þar sem megináhersla var lögð á skálabygginguna.

    Hins vegar var mikið gróðursett á vellinum. Stór tré voru gróðursett meðfram 1. brautinni. (nú 4.braut) og umhverfis 2.flöt. Trén voru gefin af Herði Sigmundssyni. Einar Egilsson og Jón Svanþórsson gáfu víðiplöntur sem gróðursettar við  1. og 2. braut.


  • Völlurinn var ekki kominn í gott ástand fyrr en um miðjan júní. Frost í maí gerði það að verkum en hins vegar var hægt að spila völlinn til loka október.

    Helstu framkvæmdir á vellinum  voru þær að gengið var frá umhverfi flatar á 2. braut (nú 5.braut) og stór sandglompa gerð hægra megin við hana. Kraginn fyrir aftan 4. flötina (nú 7.flöt) jafnað og svæðið tyrft og ný sandgryfja gerð hægra megin við flötina.

    Teigar og 4. og 9. braut stækkaðir og byrjað að vinna við fremri teiga á 1. og 6. braut.     ( nú 4. og 9.braut).

    Um haustið var hafin vinna við að lengja 6. brautina og flytja efni í nýja flöt sem verður upphækkuð. Sú braut er par þrjú og flötin fyrir aftan veginn sem sker núverandi 9. braut. Eftir stækkunina verður hún par 4 og lengist um 125 m.  Þá var plantað nokkur þúsund græðlinga við 2. og 4. braut til uppvaxtar og gróðursetningar síðar.

    Keypt var ný Toro flatarsláttuvél sem kostaði 2 milljónir. Og var tekið lán fyrir henni hjá Iðnlánasjóði til 10 ára. Vélin gjörbreytti öllum afköstum við sláttinn. 


  • Gerð var ný flöt á 9. braut og tvær sandgryfjur settar sitt hvorum megin við hana. Byrjað var að leika inn á þessa flöt síðsumar. Því miður tókst ekki nægilega vel til með flötina þó undirvinnan hafi verið góð. Frost hafi ekki verið farið úr fyllingarefni svo fara þarf í endurbætur á flötinni. Gengið var frá svæðinu þar sem gamla flötin var.

    Valtað og sáð þar sem þurfti í svæði frá gömlu flötinni  og að hinni nýju. Nýr fremri teigur gerður á 4. braut. Fremri teigur á 9. braut var stækkaður.

    Víða á vellinum var gróðursett tré. Sumt dafnaði vel en annað ekki. Flatir voru gataðar og sandbornar.

    Engar vélar voru keyptar á árinu.     


  • Engar stórframkvæmdir unnar.

    Stígur á milli 1. og 2. brautar endurgerður. Sandglompur skornar upp og lagaðar.

    Bílastæðið var stækkað og gerður hringvegur sem greiddi fyrir  allri umferð. Engar nýjar vélar voru keyptar.

    Mikil vinna fór í að gera upp vélakostinn og var hann í toppstandi í sumar.


  • Golfvöllurinn mældur upp af Jóni Ágústi Jónssyni 5.maí .

                  Gulir teigar      Rauðir teigar

    1.       hola         362m             320 m

    2.       hola         123m             109m

    3.       hola         302m             273m                

    4.       hola         295m             253m

    5.       hola         280m             245m

    6.       hola         162m             147m

    7.       hola         379m             336m                

    8.       hola         475m             417m                

    9.       hola         280m             249m      


  • Engar stórar framkvæmdir þetta árið  þar sem megin áhersla var  lögð á að slá brautirnar oftar og bæta umhirðu.

    Vinnudagurinn var haldinn 23. maí og mættu 32 félagar að gera  völlinn klárann fyrir sumarið. Völlurinn kom vel undan vetri og var mjög góðu ásigkomulagi um sumarið enda veðurfar með eindæmum gott.

    Keypt var 6 ára gömul uppfærð brautarvél hjá G.Á Péturssyni sem reyndist mjög vel enda mun afkastameiri en gamla vélin sem verður notuð sem varavél.


  • Engar stórar framkvæmdir voru á vellinum þetta árið. Þó var gerð ný æfingarflöt og aftari teigur á 3. braut stækkaður fram um helming. Lagður var göngustígur upp að aftari teig á 5. braut. Dæluskúrinn sem hafði sett mikinn svip á 3. braut  var tekinn og í staðinn voru gróðursettar 3 aspir við rústirnar.

    Vegna nýrra lagna að Öndverðarnesbænum varð mikið jarðrask á 3.,8. og 9. braut. Það var allt lagað og tyrft. Gámaþjónustan gaf klúbbnum grænar ruslatunnur og voru þær settar við flesta teiga og upp við skála. 

    Hefðbundinn vinnudagur var 22. maí og mættu 20 manns í hin hefðbundnu vorverk s.s. að bera í stíga, flytja sand í bönkera og kantskera þá, fúaverja skála og annað tréverk. Sjálfboðavinnan gefur góða stemmningu og þéttir félagsandann. Golfvöllurinn kom illa undan vetri og var mjög blautur og mikill frostlyftingur um vorið en ástandið var þó orðið þokkalegt í byrjun júní.  

    Tvær nýjar sláttuvélar voru keyptar og stóra flatarvélin var yfirfarin og nú vantar helst röffvél.   


  • Fremri teigur á 1. braut hafði verið á tveimur pöllum en var nú jafnaður og þökulagður.

    Á 2. braut var trébrúin fjarlægð og ræsisrör sett í staðinn og möl sett yfir svo auðveldara verði fyrir bíla að komast yfir.

    Á 3. braut var sett ræsi  nálægt 100 m hælnum vinstra megin á brautinni. Ræsi einnig sett í djúpu lautina við flötina. 

    Á 5. braut var fremri teigur stækkaður og þökulagður. Þrjár 4-5m aspir voru gróðursettar vinstra megin við brautina. (standa nú hægra megin við 6. braut) þessar stóru aspir settu mikinn svip á brautina.

    Á 7. braut var trébrúin fjarlægð enda orðin hættuleg og í staðinn sett strengjasteypueining 2.4m að breidd. Brúarstæðið var fært til og haft nær veginum þar sem skurðurinn er grynnri. 

    Trébrú á milli 7. og 8. brautar fjarlægð, ræsisrör sett í staðinn og möl sett yfir. Við flötina safnaðist oft vatn. Svæðið ræst, sett rör og niðurfallsgrind og síðan tyrft. Á 9. braut var fremri teigur stækkaður fram og tyrfður.

    Fyllt var upp í grunn á Hátúninu og hann þökulagður vegna slysahættu sem hann gat valdið. Síðan var borið víða í göngustíga úr varanlegra efni.

    Áburður var því borinn á allan völlinn og sums staðar oftar s.s. á neðri hluta 1. brautar og í dalnum á 8. braut. Hefðbundinn vinnudagur var 20 maí og mættu 30 manns í vorverkin. Auk þess var farið í að eldverja stigaop á milli vélageymslu og golfskála að kröfu eldvarnareftirlits. Einnig þurfti að fjarlægja plasteinangrun í lofti fjóss og setja óbrennanlega einangrun í staðainn.

    Völlurinn kom nokkuð vel undan vetri nema teigarnir sem voru illa farnir af kali. Reynt var að lagfæra þá með því að slæsa,  gefa áburð og sá en því miður með litlum árangri.

    Engar vinnuvélar  voru keyptar á árinu en ný háþrýstidæla var keypt til þess að þrífa vélar og tæki.

    1000 trjáplöntur voru gróðursettar víðs vegar um völlinn og lifðu 70% þeirra af fyrsta sumarið.



  • Miklar framkvæmdir á vegum Orkuveituveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Þorlákshafnar og aðalvirkjunarsvæðið var á golfvellinum í Öndverðarnesi. Boraðar voru nýjar borholur, dæluhús reist vinstra megin á 9. braut og vegir lagði um völlinn m.a. einn sem sker bæði 1. og 9. braut. Þessar framkvæmdir hafa  valdið töluverðum skemmdum á vellinum. Þótt framkvæmdaaðilar muni lagfæra skemmdir sem orðið hafa mun langur tími líða þar til völlurinn kemst í samt lag.

    Helstu framkvæmdir á vellinum voru þær að fremri teigur á 1. braut var stækkaður og tyrfður og skemmdir á brautinni eftir borun voru lagfærðar. Tilraunaborhola var boruð á teignum á 2. braut. Vinnuflokkur á vegum OR endurbyggði síðar teiginn og tyrfðu. Eftir viðgerðina varð hann stærri en áður. Á 4. braut urðu talsverðar skemmdir á göngustíg og brekku niður að braut vegna borunarframkvæmda. Lagfæring fór ekki fram það sumarið. Á 6. braut voru  byggðir upp stærri teigar og þeir tyrfðir. Á 8. braut voru svöðusár eftir borunarframkvæmdir og tengingar við aðaldæluhús. Mikil vinna er framundan að laga þær skemmdir. Grafinn var djúpur skurður þvert yfir 1. og 9. braut, fram hjá golfskálanum og síðan eftir veginum og út úr landinu.Mikil vinna er framundan  að laga skemmdirnar, sérstaklega í kringum skálann og bílastæði. Framkvæmdaraðilar munu standa straum af lagfæringunum.

    Mikil viðgerð fór fram á stóru brautarvélinni m.a. skipt um allar legur og sláttuhnífar brýndir. Keypt var ný sláttuvél í stað traktorsins. Hún verður notuð sem röffvél á litlum svæðum.

    Lokaframkvæmdir vegna brunaúttektar voru gerðar á golfskála. Lokað var fyrir hurðarop á milli fjóss og hlöðu og eldvarnarhurð sett eina opið sem eftir var. Lokið var að skipta út plasteinangrun í fjóslofti og setja steinull  í staðinn og síðan klætt af með gifsplötum. Kostnaður var nokkur og var honum skipt á milli Öndverðarness og golfklúbbsins. Hlutur klúbbsins var 200.000 kr. Á efri hæðinni var panilklæðning í lofti tekin niður og það endurklætt.

    Á vinnudegi 19. maí mættu 30-40 manns og var byrjað að fúaverja skálann að utan en verkið stoppaði vegna veðurs. Ekki var haldið áfram um sumarið og bíður það fram á  næsta ár. Menn gátu hins vegar farið í hin hefðbundnu vorverk.


  •  Vinnudagurinn var 19 maí .Teigur á 4. braut var endurnýjaður og borðið í stíga betra efni en áður hafði verið gert. Þá voru flatir gataðar og toppdressaðar. Úttekt var gerð á golfvellinum í maí af Margeiri Vilhjálmssyni með aðstoð frá Stefáni Gunnarssyni og Einari Einarssyni. Flatir taldar góðar og umhirða til fyrirmyndar. Brautir góðar en of mikið af mosa á þeim. Teigar voru taldir of litlir.  Gerðar voru tillögur því til úrbótar með áburðargjöf, söndun á flötum, skurð og götun. Við áburðargjöf og hirðingu var að mestu farið eftir tillögum í skýrslunni og sáu golfarar strax mun um sumarið. Miklar framkvæmdir voru á vegum Orkuveitunnar vegna heita vatnsins og urðu skemmdir á vellinum vegna þessa.

    Vinnudagurinn var haldinn 18. maí.

    Engar vélar voru keyptar á árinu, viðhald véla var kostnaðarsamt svo nauðsynlegt verður að endurnýja vélakostinn. 


  • Á vinnudaginn 17. maí  mættu tæplega 40 manns og unnu við hefðbundin vorverk. Margeir Vilhjálmsson kom með starfsmenn frá GR og voru flatir skornar og sandbornar. Gerður var samningur við GR um að slæsa, sandbera flatir og bera fræ og áburð á þær. Þetta var gert fjórum sinnum yfir sumarið  með góðum árangri. Teigar voru gerðir eða stækkaðir á 3.,4.,5.,6. og 7.braut  eftir tillögum frá Margeiri frá því árinu áður. Nokkrir klúbbfélagar tóku sig til og hreinsuðu út úr haughúsi, lögðu járnmottur í gólfið inni og planið fyrir framan og steyptu síðan allt jafnt inni sem út.  Framkvæmdin var öll unnin  í sjálfboðavinnu klúbbfélaga.  Keypt var vinnuvél, brautarsláttuvél og tvær minni sláttuvélar.

    Með hliðsjón af vallarúttekt Margeirs frá 2002 vann Óli Jóns formaður vallarnefndar vel útfærða og metnaðarfulla skýrslu til stjórnar  vegna umhirðu og vallarframkvæmda. 

    Áætlun var gerð um driving range og voru hestamenn búnir að gefa eftir spildu til þess.


  • Stofnfélagar klúbbsins voru í upphafi eingöngu félagar í múrarfélögunum í Reykjavík, börn þeirra og makar enda máttu þessir aðilar eingöngu eiga sumarbústaði í Öndverðarnesi. Golfklúbburinn var sameiningartáknið  og meðlimir klúbbsins  ein stór fjölskylda sem lét sig völlinn varða og voru alltaf tilbúnir að rétta hjálparhönd þegar framkvæmdir stóðu fyrir dyrum. Allar framkvæmdir voru unnar í sjálfboðastarfi með Friðrik Andrésson og Gísla Dagsonar í broddi fylkingar.

    Um kringum aldamótin  áttu sér stað ýmsar breytingar í Öndverðanesi. Búið var að opna fyrir sölu á sumarbústöðum til annarra en múrara. Golfarar af höfuðborgarsvæðinu sáu sér hag í því að kaupa sumarbústað þar sem góður golfvöllur var innan svæðis. Við það fjölgaði félögum í klúbbnum. Nýir menn komu til sögunnar enda voru þeir félagar Friðrik og Gísli búnir að skila góðu dagsverki. Nýir menn í stjórn voru stórhuga í að gera völlinn enn betri og stækka, nokkuð sem menn höfðu áður séð sem draumsýn. Árið 1989 samþykkti stjórn- og kappleikjanenfnd  tillögu þess efnis að láta hanna og teikna 18 holu golfvöll. Af því varð ekki því  einnig var sett fram tillaga um að gera klúbbhús í fjósinu við Öndverðarnessbæinn. Það varð forgangsatriði  hjá stjórninni enda gamli skálinn löngu sprunginn utan um starfsemina.                  


  • Forsvarsmenn að stækkun golfvallarins í 18 holur voru Örn Karlsson formaður, Guðmundur Hallsteinsson varaformaður og Ólafur Jónsson  formaður vallarnefndar. Össi, Óli og Ebbi eins og þeir eru jafnan kallaðir hittust á köldum vetrardegi í febrúar ásamt nokkrum  klúbbfélögum bæði innan og utan stjórnar sem jafnframt voru sumarbústaðaeigendur í Öndverðarnesi og héldu nokkurs konar hugarflugsfund í golfskálanum. Rætt var um framtíðarsýn golfklúbbsins og þær áherslur sem þeir vildu sjá í rekstri klúbbsins. Gerður var verkefnalisti og bar sérhver fundarmanna ábyrgð á tilteknu verkefni. Fundarmenn settu fram háleit markmið að eftir 5 ár yrði komin teikning af 9 viðbótarholum, að komið yrði driving range, kúluvél, æfingarflöt og bætt aðkoma að svæðinu. Framtíðarsýn þeirra eftir 20 ár var að  gera Öndverðarnesvöll að frábærum 18 holu golfvelli með starfsfólki sem veiti bestu þjónustu sem  völ væri á og  nýta völlinn til útivistar að vetri til þannig að völlurinn yrði útivistarparadís allan ársins hring. Níu holu æfingavöllur og æfingasvæði. Koma upp litlum húsum til útleigu, stærra klúbbhús og  starfsmann allt árið ásamt 5-7 sumarstarfsmönnum til þess að annast völlinn. Menn höfðu væntanlega ekki getað ímyndað sér hversu fljótt hugmyndir þeirra urðu að veruleika.

    Fljótlega eftir hugarflugsfundinn fer Ebbi formaður Múrarameistarafélagsins og varaformaður golfklúbbsins á fund með Sigurjóni á Brjánsstöðum og fær hann til að gefa verð í að ýta út þessum 9 holum  og undirbyggja teiga og flatir með rauðamöl sem undirlag.  Tilboðið kr. 5.723.875  var mjög hagstætt enda en var aðeins 1/3 af heildarkostnaði eins og kemur fram í grófri kostnaðaráætlun sem var gerð var í framhaldi ásamt sáningu, torfi og vökvunarkerfi að öllum teigum og flötum. Sú heildaráætlun hljóðaði upp á kr. 16.108.000-.   Ekki var því til setunnar boðið  og boðað var til fundar í stjórn golfklúbbsins.

    Strax eftir að tilboðið barst fóru þeir Ebbi og Óli í umboði stjórnar golfklúbbsins í viðræður við  eigendur Öndverðarness sem var í eigu múrarafélaganna í Reykjavík. Það voru hæg heimatökin því Ebbi var á þeim tíma formaður Múrarameistarafélagsins. Hann og Helgi Steinar Karlsson formaður Múrarafélagsins voru miklir golf unnendur og þeir sáu fljótt að  stækkun golfvallarins yrði lyftistöng fyrir samfélagið í Öndverðarnesi enda höfðu félögin  lagt drög að mikilli fjölgun sumarhúsalóða  á ásnum fyrir ofan golfskálann.  Á aðalfundi í janúar 2005 var borin upp tillaga stjórnar um stækkunina og var hún samþykkt samhljóða. Um leið og stjórn Öndverðarness hafði gefið leyfi fyrir stækkuninni var hafist handa og  hafði Óli samband við Margeir Vilhjálmsson framkvæmdastjóra GR til þess að kanna hvort hann hefði áhuga á að teikna fyrir klúbbinn 9 holu stækkun. Margeir tók vel í það og 30. júlí 2005 skilar hann fyrstu tillögum. Í greinargerð með tillögunum kom m.a.  fram að stækkunin verði í jafnvægi við þær holur sem fyrir væru. Reynt verði að fella völlinn inn í landið svo jarðrask við framkvæmdir verði sem minnstar og að 10. teigur og 18. flöt verði sem næst klúbbhúsi.  Mikill metnaður var hjá þeim félögum að lega þessara nýju brauta yrði sem glæsilegust og voru haustmánuðirnir nýttir  til þess að liggja yfir teikningum og betrumbæta tillögur Margeirs. Sérstaklega var horft til þess að teigar stæðu hátt og þaðan yrði frábært útsýn. i   (Ræða Óla við opnun)

    Þetta sumar var nýr teigur  gerður á 9. braut og teigar á 3,4,5. og 7. braut stækkaðir.    Byggð var æfingarflöt upp við skálann og nýtt æfingasvæði plægt og tilbúið verður svæðið driving range þar sem menn geta keypt æfingarbolta líkt og í bænum. Áfram var haldið að vinna eftir skýrslu Margeirs við  að ná betri rækt í flatirnar og sá flokkur frá GR undir stjórn Margeirs  um þá vinnu. 40 manns mættu á vinnudaginn til þess að undirbúa völlinn fyrir sumarið.  Unnið var við að lagfæra bílastæðið eftir rask Orkuveitunnar. Gamall sökkull sem var við bílaplanið var rifinn upp. Vegur að bæ var olíuborinn og þá var einnig sett olíumöl á bílaplanið    

    Flatarvélin var seld og ný keypt í staðinn af TORO gerð. Fengnir voru nýir olíutankar og þeim kom fyrir fyrir á plani fyrir framan gamla haughúsið.     


  •  Í upphafi árs kom fram  tillaga að legu brauta frá Margeiri. Ekki voru allir sammála  legu brautanna þar sem svæði núverandi 11.,12. og 13. brauta var ekki inn í upphaflegu tillögum Margeirs. Þar voru gömul tún og því mun ódýrari framkvæmd. Eftir ábendingu frá Óla og Ebba varðandi túnin kom Margeir  með nýja tillögu sem er eins og brautirnar eru í dag. Samið var við  Sigurjón frá Brjánstöðum um að ýta út vellinum og undirbyggja teiga og flatir með rauðamöl. Síðar tók Steindór Eiðsson eða Steini ýtumaður við en hann hafði mikla reynslu af mótun golfvalla. Hann sá um að móta brautir, flatir, teiga og glompur eftir forsögn Ebba og Óla. Einnig var jafnað út svæði  fyrir æfingasvæði. Í þessari vinnu mæddi mest á Ebba og Óla sem unnu mörg hundruð tíma í sjálfboðavinnu.  Á gamla vellinum voru teigar á  8. og 9. braut stækkaðir. Keypt var ný brautarsláttuvél ásamt sturtuvél og áburðardreifara. Öndverðarnes keypti nýjan traktor sem golfklúbburinn fékk aðgang að. Þessi vélakostur mun nýtast vel þegar völlurinn verður 18 holur.  Tveir vinnudagar voru haldnir, 7. maí og 21. maí.

    Á aðalfundi útskýrði Ólafur Jónsson framkvæmdir við nýja völlinn og sagði heildarkostnað hljóða uppá ca. 16 milljónir. Þá ræddi hann áætlun varðandi vinnulaun og sjálfboðavinnu.


  • Hinn árlegi vinnudagur var 5. maí. Miklar framkvæmdir voru á vellinum. Snemma vors var byrjað að grafa fyrir vatnslögn á nýja völlinn. Grafnir voru 1600m skurðir með gröfu sem fengin var endurgjaldslaust frá Byko. Félagar unnu í sjálfboðavinnu að sjóða saman rörin og setja í skurði. Á nokkrum stöðum þurfti að lagfæra brautir með ýtu þar sem svæðin drenuðu sig ekki nægilega vel.  Hópur félagsmanna fór þá yfir brautirnar og grjóthreinsuðu. Síðan var völlurinn slóðadreginn, sáð í hann og að lokum var hann valtaður og áburði dreift. Einnig var borið á æfingarsvæðið og gamla völlinn. Um haustið var sérræktað gras sett á nýju flatirnar og nokkra teiga. Þessi vinna var að mestu leyti á höndum  Ólafs Jónssonar formanns vallarnefndar og Guðmundar Hallsteinssonar varaformanns. Þeir fengu síðan til liðs við sig í stærri verkefni vaskan hóp sjálfboðaliða. Hin mikla sjálfboðavinna auk framlaga nokkurra félagsmanna upp á 1.5 milljón kr. gerði klúbbnum kleift að framkvæma eins mikið og raun ber vitni. Einnig styrkti Múrarameistarafélagið klúbbinn um 2 milljónari króna.

    Á gamla vellinum var keypt þjónusta af GR varðandi götun og söndun grína skv. skýrslu.


  • Vinnudagur 19. maí. Keyptir voru tveir golfbílar, öflug röffvél og flatarvél. Unnið var við uppbyggingu teiga á nýja vellinum og byrjað að tyrfa. Haldið var áfram með göngustígagerð. Unnið var mikið við grjóthreinsun og sáð í svæði sem voru graslítil.  Byrjað var að slá og sandbera flatir á nýja vellinum og þær vökvaðar daglega. Nokkrar framkvæmdir voru á gamla vellinum þar sem teigar voru stækkaðir og lagaðir. Unnið var við æfingasvæðið og það gert tilbúið til notkunar.


  •  Lengdarmælingar á nýju brautunum voru unnar af Óla og Ebba. Lengdirnar voru sem hér segir:

                         Gulir teigar            Rauðir teigar

    1.       braut                    307m             268m                

    2.        braut                  481m                 407m

    3.        braut                  353m                258m

    4.        braut                  150m                125m

    5.        braut                  310m                252m

    6.        braut                  115m                100m      90 

    7.        braut                  449m                395m

    8.        braut                  315m                269m

    9.        braut                121m                111m 

    2.601m 2.185 m

    Stígar voru gerðir á nýja hluta vallarins. Lokið var við tyrfingu teiga og handsáð í sár í kringum flatir og brautir yfirsáðar. Tveir vinnudagar voru í maí vegna opnunarinnar og mikil vinna var við lokafrágang. Það þurfti að búa til brautaskilti, mæla völlinn og fá vallarmat frá GSÍ, útbúa ný skorkort, setja fjarlægðahæla og teigmerki  auk fjölmargra annarra atriða. Allt hafðist þetta með hjálp fjölmargra golffélaga. Á árinu var keypt notuð flatarvél, pallbíll, valtari og vinnubíll með sandara. 18. júlí var völlurinn formlega opnaður í 18 holur. Ákveðið var að nýju brautirnar yrðu leiknar sem fyrri níu holur vallarins.   


  • Það kom fram tillaga að breytingum á 5. og 6. braut vallarins.  5. holan var mjög  stutt par 4 hola og það skapaðist líka hætta á flöt vegna innáhögga af  7. braut.  6. holan var löng par 3 og kominn var tími á að laga flötina. Breytingin fólst í því að gera 5. brautina að par 3 og lengja 6. holuna og gera hana að par 4.

    Helstu framkvæmdir á golfvellinum þetta sumar:

    1. braut. Moldhaugur við skurð jafnaðar út.

    3.braut. Röffið lagað fyrir framan hólinn hægra megin nálægt 100 m fjarlægðar       hælnum. Grjótgarðurinn fyrir aftan flötina fjarlægður og svæðið lagað.Flötin hélt illa boltum og runnu þeir í grjótgarðinn sem kostaði golfara vítishögg.  

    5. braut. Ný flöt byggð upp og 2 bönkarar gerðir

    6. braut. Ný flöt byggð upp og 3 bönkerar gerðir.            

    7.braut. Nýr fremri teigur við grjótgarðinn vinstra megin við göngustíginn.

    8.braut. Vinna hafinn við gerð teigs við skurðinn á milli 7. og 8. braut.

    9.braut. Drenlögn  gerð fyrir framan aftari teig og útsýnispallur smíðaður eins og á         8. braut.

    11.braut. Gerð var brú fyrir skurðinn fyrir framan fremri teig og röffið hægra megin við skurðinn lagað þar sem það olli miklum vandræðum fyrir högg     stutta   golfara. Svæðið fyrir aftan flög lagað og sáð í það.

    13.braut. Gerður var drenskurður fyrir framan flöt þar sem mikil bleyta safnaðist.

    14.braut. Brautin grjóthreinsuð og fyllt í laut sem var hægra megin í röffinu fyrir         framan hæðina.

    15.braut. Fremri teigur stækkaður. Stígur á milli 15. og 16. braut lagfærður. Gróður fyrir aftan flötina fjarlægður og svæðið tyrft.

    16. braut. Aftari teigur stækkaður og byggður upp að nýju. Tyrft í kringum fremri teig. Semiröffið vinstra megin stækkað verulega þar sem þeir höggstuttu eru í miklum vandræðum með upphafshöggið. Semi röffið nálægt 100m fjarlægðar hæl breikkað. Lega brautarinnar færist þá fjær veginum.

    18. braut. Brautin lækkuð nálægt flöt um 1m svo hún sjáist betur frá teig. Landslag við flöt breytt og gerðir 3 bönkerar. Allt svæðið var tyrft. Gerð var ný púttflöt fyrir framan skálann og brekkan þar fyrir neðan snyrt og sáð í hana.      

    Unnið var eftir verkefnalista frá formanni vallarnefndar sem var í raun nokkurs konar i vallarstjóri án launa.

    Ný brautarvél var keypt á 8.2 milljónir  og einnig sláttuvél á 1.3 milljónir


  • Allar framkvæmdar voru að mestu gerðar í sjálfboðavinnu undir styrkri stjórn Óla Jóns sem var óþreytandi að finna leiðir til að gera góðan golfvöll enn betri. 40-50 manns mættu á vinnudaginn við tyrfingu, grjóthreinsun og frágang göngustíga. Það starf er ómetanlegt fyrir klúbbinn. Nýja æfingafötin fyrir framan golfskálann var tekin í notkun

    Ný flöt var gerð á 5.braut og útbúnir 2 bönkerar. Á 7. braut var gerð tjörn og skurði lokað að hluta. Á 8. braut var hafin vinna við nýjan fremri teig.

    Keypt var ný flatarvél en sú gamla var seld. Nýtt vökvunarkerfi var keypt með aðstoð velunnara klúbbsins. Það þarf því að fara  að skipuleggja lagningu kerfisins en á nýja vellinum eru allar vatnslagnir fyrir hendi og var það gert þegar völlurinn var gerður.


  • 45-50 manns koma til starfa á vinnudaginn. 17. brautin var framræst en mikil bleyta safnaðist fyrir nálægt 100 m fjarlægðar hælnum.  Grafinn var drenskurður  frá hæsta punkti brautarinnar og að 100 m hælnum. Þar var grafin laut sem átti að koma vatninu frá. Sú vinna skilaði sér frábærlega. Tilraun var gerð til að ræsa 11. brautina sem er mjög blaut enda lögð í mýri. Það náðist sæmilegur árangur en um haustið var farið í að grafa mjóa skurði og fylla þá með drenmöl. Færðar voru 2-3m aspir af gamla hlutanum og þau gróðursett beggja megin á 6. braut og 10. braut. Einnig fyrir aftan flötina á 15. braut. Svæðið fyrir aftan 10. brautina var hækkað og tyrft svo flötin varð sýnilegri. Búið var að mestu að ganga frá búningsaðstöðu á neðri hæð. Aðeins átti eftir að ganga frá salerni og vöskum. Að utan var golfskálinn steinaður og málaður.

    Gömlu brautarskiltin voru endurmáluð og sett sem framan á handrið golfskálans.

    Reistur var veggur að norðanverðu til að taka af hæðarmun kjallara og 1. hæðar.

    Möl borin á svæði fyrir framan kerrugeymslu.

    Lyngtorf var sett á milli bílastæðis og akvegar að skála.

    Ný röffvél var keypt á árinu og úðunartæki aftan á traktor .


  • Tæplega 50 manns mættu á vinnudaginn og unnu við grjóthreinsun, sáningu og göngustíga.

    Stærstu framkvæmdirnar  á árinu voru vel heppnaðar ræsingar á skurðum við 11,12,13 og 17. braut. Skurðirnir voru dýpkaðir og gras hreinsaðir.

    Einnig voru grafnir skurðir langsum eftir brautum 11 og 13. Í þá var sett drenmöl. Hólar fyrir aftan 10. og 15. flöt voru tyrfðir. Tjörn við 15. braut hlaðin með grjóti, í hana settur dúkur og svæðið umhverfis tyrft.

    Gerðir voru 3 bönkerar við 15. flöt og bönkerar við 16. flöt stækkaðir.

    Á 8. braut var röffið vinstra megin fyrir breikkað og brautin færð lengra til vinstri. Mikil órækt var á þessu svæði sem tafði mjög leik á brautinni. Ný götunarvél var keypt sem nýtist bæði á flatir og brautir.

    Þá var keypt ný sáningarvél ásamt tveimur golfbílum til útleigu. Síðan voru gerð vélaskipti við Öndverðarnes, þeir fengu traktor í eigu klúbbsins en klúbburinn Mac Cormic traktor. Áfram mun golfklúbburinn hafa afnot af traktornum við stærri verkefni.


  • 45-50 manns mættu á vinnudaginn og undirbjuggu völlinn fyrir sumarið.

    Ákveðið var að gera 1. brautina að par 5 og lengja hana þannig að flöt  næði að bökkum Hvítár og aftari teigur yrði staðsettur við  æfingarflöt. Með þessu mun brautin lengjast af aftari teig um 45m. Vinnan hófst á árinu, grjóti var ýtt út í Hvítá til þess að verja flötina, síðan var grínið mótað og tyrft. Um haustið var gamla grínið rutt fram og brautin mótuð. Mikil breyting var gerð á 9. braut og var hún lengd um tæplega 30 metra og legan færð til vinstri þar sem gert var nýtt flatarstæði. Um sumarið var var flötin tyrfð.  Í vor verður 1. brautin tyrfð svo bæði 8. og 9. braut verða þá leikhæfar á 40 ára afmæli klúbbsins 2014.

    Þorleifur Magnússon gaf ný  og glæsileg teig- og fjarlægðarmerki á allan völlinn.


  • Á vinnudaginn mættu 60-70 manns  og víða var tekið til hendinni m.a. við tyrfingu, sáningu, grjóthreinsun brauta og frágang göngustíga.   

    Flatirnar  komu illa undan vetri og var töluvert kal í þeim.  Sáð var í þær en illa gekk að fá fræ til að spíra.  Árangurinn varð þó þokkalegur eftir þrjár sáningar.

    Stærstu framkvæmdir sumarsins voru  að ljúka við að grafa drenskurð framan við fyrstu flötina til að hindra að vatnið úr brekkunni safnaðist fyrir fremst á flötinni.

    Ákveðið var að tyrfa svæðið síðan þar sem sáningin  skilaði sér ekki vegna mikilla rigninga. Svæðið var tilbúið til tyrfingar í lok maí en þá fór að rigna og var svæðið  óhæft  til tyrfingar þar sem ekki var hægt að koma við vinnuvélum. Það tókst að lokum í lok í júlí .

    Þá var fyrsti  og níundi teigurinn einnig tyrfðir. 

    Vegna rigninganna í sumar voru 10. , 11., 12. og 17. braut mjög blautar og var  ákveðið að gera ræsingu með því  að kíldraga brautirnar. Eins og tyrfingin þá dróst sú framkvæmd fram eftir sumri þar sem ekki var hægt að koma vélum  á brautirnar. Það var því  ekki mikil þolinmæði hjá sumum félögum golfklúbbsins vegna ástands vallarins. 

    Bjarni Þór Hannesson grasvalla tæknifræðingur var fenginn til að koma með úrbætur  vegna bleytusvæða á nýja hlutanum.  Um haustið var farið í verkefni til þess að  þurrka 10. og 13. braut með því að grafa dren skurði eftir ákveðnu kerfi. Kostnaðurinn varð ekki nema 20%  af kostnaðarverði þökk sé dugnaði vallarstjóra og vaskra sjálfboðaliða.

    Stjórn Öndverðarness lét hreinsa skurðinn á milli 10. brautar og æfingarsvæðis en æfingasvæðið var ónothæft vegna bleytu stóran hluta sumarsins.

    Þar sem reksturinn var í járnum var ekki farið í vélakaup þó var keyptur flatar valtari sem reyndist mjög vel.   


  • Á vinnudaginn 9. maí mættu 60 félagar að fjölbreyttum verkefnum á velli og við skála. Gengið var frá hellulögn við fremri teig á 1. braut.

      Farið var í landslagsmótun á 12. braut til þess að bæta ásýnd brautarinnar og auðvelda framræsingu því í vætutíð verður hún sums staðar nánast óleikhæf.

    Skurður á milli 13. og 17. braut var endurmótaður, Gerð var brú yfir lægð í brautar byrjun og stígur lagður frá teig að brú. Í nóvember fór hópur sjálfboðaliða í vinnu við að ræsa 11. brautina undir stjórn starfsmanna. Skurðurinn fyrir framan fremri teig var endurmótaður. Tæplega 1000m af drenskurðum gerðir. Grafinn var stígur meðfram brautinni vinstra megin frá skurði og að teig á 12. braut. Sett var drenlögn í skurðinn sem á að hjálpa brautinni að losa sig við vatn. Drenlögn var lögð fyrir framan 1. flöt til þess að auðvelda brautinni að  losa sig við vatn.  Einnig var grafinn drenskurður inn í miðja flöt í sama tilgangi.

    Vallar og mannvirkjanefnd fékk Edvin Roald golfvallarhönnuð til aðstoðar við þessar framkvæmdir.

    Mikil vinna fór í laga kalbletti í nokkrum flötum sem ekki hafa jafnað sig frá frá vetrinum 2013-2014

    Keyptur var pallbíll og spreybíll til dreifingar á fljótandi áburði auk smærri áhalda s.s. handsláttuvéla, orf og nýjar flaggstangir ásamt  speglum á þær.

    Nýtt vallarmat var gert sem þýddi breytingu á leikforgjöf og par vallarins breyttist úr 70 höggum í par 71.


  • 50 mann mættu á vinnudaginn við hin hefðbundnu vorverk. Veturinn var erfiður og klaki myndaðist snemma og mikil snjóalög kölluðu á vinnu við að hreinsa flatir af snjó og þurfti  að gera þessa aðgerð tvisvar sinnum og sums staðar oftar. Það kom þó ekki fyrir allar skemmdir á flötum en greru að lokum. Brautirnar urðu verst úti og fóru illa á stöðum sem ekki hafði sést áður. Stóra skurðunum sem klauf 11. brautina  var lokað með ræsi. Sáð var í sárið og það spilað sem braut. Ræsingin frá því í fyrra sýndu glögg merki um árangur. Þá var frekari ræsing gerð í brekkunni fyrir framan 1. flöt, lagðir voru drenbarkar upp í brekkuna til þess að leiða vatn burtu.

    Um haustið var fyrir í að setja niður sjálfvirkt vökvunarkerfi á seinni 9 holunum. Búið er að ganga frá því við flatir 10,11,12,13,16 og 17.

    Jón Svarfdal Hauksson smíðaði tröppur upp á báða teiga á 9. braut og gerði nýja brú  yfir lækinn á milli 14. og 15. brautar.

    Keypt var Caterpillar beltagrafa einnig var keyptum TORO vinnubíll auk handverkfæra.


  • Vinnudagurinn var haldinn 13. maí. Í skýrslu vallarstjóra kom fram að veturinn hafði verið óvenjugóður. Veturinn mildur og völlurinn fljótur að taka við sér um vorið.

    Unnið var að koma á vökvunarkerfi sem hófst árið áður. Lokið var við að framlengja stofnlögnina að 14. flöt og setja búnað í kringum flatir 10-17.

    Vatnsbólið var hreinsað og dæluhús steypt neðan við bólið og búið er að ganga frá tengingu. Það var gert í sjálfboðavinnu með Inga Gunnar, Jón Svarfdal og Sigurð Heimi fremsta í flokki. 

    Brautin fyrir framan 14. flöt var endurnýjuð og var hún tyrfð á vinnudeginum.

    Gerðir voru upphækkaðir teigar á 8. braut, lagt í þá vökvunarkerfi og sáð í þá. Með tilkomu þeirra verður brautin  sýnilegri af teig.  . 

    Gengið var frá rafmagni fyrir vökvunarkerfið svo það kemst í gagnið næsta sumar. Smíðaðar voru nýjar tröppur upp á aftari teig á 6. braut.

    Gengið var frá  hellulagningu við golfkerru geymslu. Þremur sandgryfjum var lokað, tveimur á 6. braut og aftasta af þremur sandgryfjum hægra megin á 11. braut enda takmarkaður tilgangur með þeim.

    Þá var keypt ný brautarslátturvél með hybrid vél og túrbínu blásari sem er dreginn á eftir vinnubíl sem mun nýtast við að blása í burtu slæju og öðru sem þörf er að blása burt 


  • Á vinnudegi 12. maí mættu 64 félagsmenn. Í skýrslu vallarstjóra kom fram að veturinn hafði verið erfiður. Flatir höfðu legið undir ís í 4 mánuði og kólu mjög illa. Reynt var að gera allt sem í þeirra valdi stóð með götun og sáningu um vorið en sumarið var rigningarsamt svo völlurinn náði seint toppstandi þrátt fyrir mikla  vinnu starfsmanna.

    Unnið var við vökvunarkerfið og framkvæmdum við dæluhús var lokið á árinu. Stofnlögn var framlengd um 25 m inn á eldri hluta vallarins.

    Í nóvember var unnið að lögn frá 8. teig að 9. og 18. flöt.

    Nýir teigar voru gerðir á 8. braut og var sáð í þá. Gerður var nýr æfingateigur  við æfingarsvæðið. Þá voru grafnir 250 m af drenskurðum í æfingarsvæðið til að þurrka það.

    Dren framkvæmdir voru á 7. braut þar sem mikið vatn frá brekkunni við veginn safnast á brautinni og kemst ekki burt. Gerðar voru drenholur á á 3.8. og 16 braut þar sem pollar myndast og niðurföll sett yfir.

    Göngustígur milli aftari og fremri teig á 10. braut var mokaður upp og skipt um jarðveg.

    Tröppur voru smíðaðar á fremri teig á 16. braut.

    Kerrugeymslan var máluð og útbúin skrifstofa fyrir vallarsjóra. Skrifstofan mun einnig verða geymsla fyrir smærri muni klúbbsins.

    Keypt var ný dráttarvél John Deers 4720. Þessi vél mun nýtast betur en eldri vélar við margvísleg verkefni.


  • Opnað var fyrir rástímaskráningu 27. apríl og völlurinn var lokaður 21. október.    Á vinnudegi voru mættir um 70 manns.  Drenlagnir voru settar í 11. braut, tyrft í kringum ræsin og hellur lagðar við 8 teig.   Á

    fram var unnið við frekari drenlagnir, nýtt salerni var reist upp við 16. teig.

    Vinna hófs við endurbætur á 4. flöt  

    Keyptir voru 4 rafmagnsgolfbílar í samvinnu við Bílaleiguna Höldur og setti Ískraft upp hleðslustöðvar.  Seldir voru 2 eldri golfbílar. Auk þess var keyptur vinnubíll með honum fylgdi sandari og röff slátturvél var keypt sl. haust.


  • Völlurinn var opnaður 17. maí og lokaður þann 18. október.  

    Ný flöt á 4. braut.  Mótunin hófst haustið 2019, en var fullkláruð vorið 2020 og þá var sáð í flötina. 

    Nýr teigur á 5. braut, fyllt upp í skurð á 13. braut og unnið við stíginn við 13. flöt. 

    Áfram haldið með vökvunarkerfið og endurbyggð var forflötin á 18. flöt.

    Nýtt salerni við 16. teig var standsett. 

    Auk þess var undirbúið að að steypa sandskiljur niður í gryfju.   (Sjá skýrslu vallarstjóra)


  •  Völlurinn var opnaður 21. maí og lokaður 19. október. 

    Tyrfing á forflöt 18. brautar og það var endurbyggð glompa við flötina, vökvun var lögð í kringum flötina ásamt 9 flöt.   

    Lokafrágangur á 4. braut,

    Veitur lögðu nýja lögn frá borholu milli 2 og 3 brautar upp í tankana við 9 braut.  Byggður var stígur við 2. og 9 braut og lögð voru vatns- og raflagnir fyrir vökvunarkerfið.  Byrjað var á endurbyggingu á 6. flötinni.  Vökvunarkerfi var byggt í kringum 4 flötina og var það tengt við kerfið sem er á 4. brautinni.

    Endurbætur voru gerðar á nokkrum rauðum teigum og nýir fremri teigar við 6. og 7. braut.  Þá var einnig í skoðun að bæta við bláum teigum sem verða ýmist á rauðum og gulum teigum auk milliteiga sem eru lítið notaðir.    (Sjá skýrslu vallarstjóra 2021). 


  • Völlurinn kom vel undan vetri og var opnaður snemma eða 6. maí.

      Maí og júní frekar þurrir og hlýir, en júlí og ágúst frekar kaldir og blautir.  Völlurinn var lokaður 27. október. 

    Sáð var í 6. flöt sem er um 900 fm sem var spilað seinna um sumarið. 

    Fremri teigurinn á 17. braut var endurbyggður og tyrfður á vinnudeginum.  

    Um haustið var unnið við undirbúningsvinnu að stækkun og bætingu á nokkrum teigum. 

    Undirbúningsvinnu lokið við að koma upp klósetti upp milli 6. og 8. braut. 

    Unnið var við vökvunarkerfið um haustið.    (Sjá skýrslu vallarstjóra 2022)

    Fjárfest í vélum og 2 golfbílum.  Keyptur var nýr gatari og sáningarvél sem kom um sumarið.  En ný flatarslátturvél ætti að koma á næsta ári 2023.  Viðræður hafa átt sér stað við Öndverðarness ehf., eiganda svæðisins, um ákveðna framtíðarsýn, þ.e. að úthluta lóð og leggja fram fjárhagsleg framlag til að hjálpa GÖ að byggja bústað.  Hugmyndin er svo að gera búseta skipti við félagið þannig að GÖ fái hvíta húsið til afnota.  


  • Vorið var einstaklega þurrt og kalt.  Snjóblásarinn sem var notaður í janúarmánuði skildi eftir sig rendur á flötum.  

    Stærsta vandamálið var vatnsskortur en vatnsbólið þornaði upp.  Veðurfarið fór einstaklega illa með nýju flatirnar 4. og 6. og erfiðlega gekk að halda raka á þeim. 

    Vinnudagurinn var haldinn 27. maí sem var tveimur vikum seinna en almennt gerist.  

    Vinna við nýja teiga á 3. braut, nýtt salerni við 6. og 8. braut var tekið í notkun. 

    Svæðið hægra megin við 7 flöt var grafið og skipt um jarðveg ásamt því að grafa fyrir nýjum stíg frá flötinni.  Einnig var teigurinn á 6. braut lagaður til og snyrtur. 

    Þegar leið á sumarið var ljóst að 9. flöt væri það illa farin að skynsamlegast væri að taka hana úr notkun og byggja upp aftur frá grunni.  Undir lok sumars var hófst vinna við þessa endurbyggingu og er hún vel á veg komin og stefnan sett á að hún verði tilbúin til sáningar vorið 2024. 

    Einnig er hafin vinna við að loka skurðinum á 12. braut, fyrir framan rauða teiginn og verður hann tilbúinn til tyrfingar í vor.