Gerð söguvefs Golfklúbbs Öndverðarness
Í september 2023 kom formaður Golfklúbbs Öndverðarness að máli við undirritaða Kristínu Guðmundsdóttur og óskaði eftir því að hún tæki að sér að halda utanum vinnu við að skrá sögu Golfklúbbs Öndverðarness í 50 ár. Þó lítið væri til af gögnum, varð samt að gera tilraun til að skrá þessa merkilegu sögu Golfklúbbs Öndverðarness og fólksins sem byggði upp starfið í 50 ár.
Úr varð að Kristín tók verkefnið að sér og varð það hennar fyrsta verk að kalla saman og ræða við reynslubolta úr klúbbnum og félaga sem hafa starfað í hartnær 5 áratugi í klúbbnum.
Meðal hugmynda í byrjun var að leita til valinkunnra blaðamanna eða þekktra söguritara. Það er skemmst frá því að segja að enginn þeirra sem haft var samband við hafði áhuga á að vinna verkefnið og hitt var líka að kostnaður hefði orðið allt of mikill.
Undirritaðar Kristín og Guðrún tóku í framhaldi af því að sér það verkefni að afla gagna sem var í mörgum tilfellum afar torsótt þar sem lítið var til af rituðum heimildum frá upphafsárunum og flestir frumkvöðlarnir gengnir á vit feðra sinna. Guðrún tók að sér að skrá allt efni m.a. úr fundargerðum og ársskýrslum en leita þurfti víða við gagnaöflun og Kristín hafði samband við ýmsa aðila og safnaði munnlegum heimildum og frumteikningum af golfvellinum. Við vorum sammála um að reyna að vinna söguefni sem gæti verið lifandi saga GÖ á vef golfklúbbsins.
Leitað var til ýmissa aðila. Guðmundur E. Hallsteinsson aðstoði við gagnaöflun, vann við yfirlestur og lagði fram ljósmyndir frá opnun á seinni 9 holum árið 2008. Hafdís Helgadóttir hafði umsjón með söfnun og skráningu ljósmynda. Aðalsteinn Steindórsson og Birna Stefnisdóttir lögðu fram ljósmyndir og vinnu við yfirlestur. Inga Ósk Óladóttir og Örn Karlsson lásu textann og gerðu góðar breytingartillögur. Sigríður Þorvarðardóttir og Sigurbjörn Ásgeirsson lásu yfir, gerðu góðar tillögur og aðstoðuðu við söfnun ljósmynda. Sigurður Heimir Sigurðsson og Þuríður Jónsdóttir aðstoðuðu við söfnun ljósmynda og gagnaöflun. Hlynur Sævarsson vann við skönnun og vinnslu mynda.
Ingi Gunnar Þórðarson skilaði ítarlegum kafla um uppbyggingu golfskálanna og bygginga í Öndverðarnesi og Helgi Steinar Karlsson skrifaði grein um samstöðu félaganna í golfklúbbnum.
Ólafur Jónsson tók saman söguyfirlit og upplýsingar um þróun og uppbyggingu golfvallarins í Öndverðarnesi frá upphafi. Við þá vinnu var haft samband við þá félaga sem eru á lífi og voru fundirnir ákaflega fróðlegir. M.a. þeirra sem rætt var við voru: Ásmundur Daníelsson og Mjöll, Ágúst Þórðarson, Kristján Ástráðsson sem fann til ómetanlegar teikningar af golfvellinum. Það var líka rætt við Hilmar Guðlaugsson, Steingerði Hilmarsdóttur Bjarna P. Magnússon, Margréti Sigurðardóttur, Þröst Eggertsson, Hannes Björnsson, Knút Kristinsson og Brynjólf Ámundason.
Samstarf við Guðmund Pálmason formann klúbbsins og stjórn Golfklúbbs Öndverðarness hefur verið einstaklega gott og það var ávallt hvetjandi að finna fyrir áhuga á verkefninu sem kom fram í samskiptum við formanninn og stjórnina. Framkvæmdastjórinn Sveinn Steindórsson hefur stutt verkefnið af alúð og unnið vel í að setja efnið inn á vef klúbbsins og sjá um að skanna myndir inn á myndabankann.
Mikið af upplýsingum koma frá aðalfundargerðum, upplýsingum úr tímaritum og úr bók Brynjólfs Ámundasonar, Safn til sögu Öndverðarness frá öndverðu til vorra daga, síðara bindi, útgefið 2013 bls. 86-116.
Á 80 ára afmæli Golfsamband Íslands var öllum golfklúbbum landsins boðið aðgangur að myndabanka GSÍ. Sigurður Elvar starfsmaður golfsambandsins sá um að opna aðgang GÖ að myndabankanum. Við erum komin með mikið af myndum frá golfklúbbi Öndverðarness og enn verður hægt að bæta inn í þann myndabanka.
Öllu fólki sem sem að ofan er talið og miklu fleirum sem lögðu þessu verkefni lið viljum við þakka innilega.
Kæru félagar í Golfklúbbi Öndverðarness.
Til hamingju með 50 ára afmælið
Kristín Guðmundsdóttir og Guðrún Guðmundsdóttir