Innganga GÖ í GSÍ 

Golfklúbbur Öndverðarness var frá stofnun allt til ársins 1998 lokaður fyrir öðrum en félagsmönnum Múrarameistarafélags Reykjavíkur, Múrarafélags Reykjavíkur, golfklúbbsins og gesta þeirra. 

Hér á eftir má er rakinn aðdragandi að inngöngu Golfklúbbs Öndverðarness í GSÍ

Á aðalfundi árið 1995 kom fram ósk til stjórnar að þegar klúbburinn væri bæði kominn með góðan völl og veglegt klúbbhús hvort ekki væri rétt að  ganga í GSÍ. Því fylgdu  vissulega bæði kostir og gallar. T.d. yrði að opna fyrir aðild fólks utan svæðis. Áður höfðu klúbbfélagar getað boðið gestum sínum frítt í golf en með opnun vallar yrði breyting á. Á aðalfundinum sem haldinn var í maí 1995 var þessu breytt. Gestir greiddu ½ gjald en gestir orlofshúsa fengju að spila frítt.    

Á árinu 1996 fóru af stað viðræður  við GSÍ um aðild GÖ. Ýmislegt þurfti að ræða sérstaklega. Margir félagsmenn væru í klúbbi í bænum og greiddu þar gjald til GSÍ og ekki sanngjarnt að félagar í GÖ greiddu þá tvöfalt gjald. Einnig hefði klúbburinn sérstöðu þar sem hann væri innan vébanda verkalýðsfélags og innganga félaga háð því að vera félagar innan MR eða MMR. Lagabreytinga væri þörf ef ganga ætti í GSÍ.  Formaður fór yfir málið á aðalfundi. Samþykkt var að gera hlé á fundinum og var boða til framhaldsaðalfundar.

Á aðalfundi 21. maí 1997 var lögð fram tillaga að lagabreytingum er varðaði inngöngu GÖ í GSÍ.

Breytingatillagan:

4. gr. Félagar geta allir orðið sem hafa áhuga á að styðja tilang klúbbsins og óska aðildar með skriflegri umsókn enda samþykki stjórnin umsókn á fundi sínum. Stjórninni er heimilt að vísa inntökubeiðnum til ákvörðunar félagsfundar. Aðalfundur ákvarðar um fjölda félaga í klúbbnum.

5.gr. Samþykktur umsækjendur telst félagsmaður og fer á félagaskrá er hann hefur greitt ákvörðuð félagsgjöld. Um félagsaðild og þátttöku félagsmanna í golfmótum skal farið að lögum og reglum ÍSÍ og GSÍ.

6.gr Inntökugjöld skulu ákveðin á aðalfundi til eins árs í senn.

Reykjavík 7.apríl 1997

Tillagan um inngöngu í GSÍ eigi síðar en í febrúar 1998 var samþykkt samhljóða og einnig inntökugjöld kr. 5.000 kr. fyrir nýja félaga.

Golfklúbbur Öndverðarness varð löglegur og fullgildur aðili í GSÍ og  ÍSÍ árið 1998 og fengu þá aðgang að öllu sem GSÍ stóð fyrir.

Skv. félagatölu átti GÖ rétt á að senda tvo fulltrúa á þing GSÍ. Innganga í GSÍ hafði töluverðan kostnað í för með sér og stjórnin var ósátt með þessar álögur sem lagðar voru á klúbba eins og GÖ þar sem árgjöld voru lág og skattur til GSÍ var hlutfallslega hærri hjá þeim klúbbum. Nefskatturinn fór úr 1.000 kr. í 2.000 kr. á hvern klúbbfélaga.  Farið var í viðræður við GSÍ og það bent að meirihluti félagsmanna í GÖ væru líka í öðrum klúbbum og því væri um tvísköttun að ræða. Að lokum samþykkt GSÍ lækkun á gjöldum GÖ úr 200.000 kr í 150.000 kr.