Kvennastarf    

Ekki fór mikið fyrir konum í árdaga golfsins í Öndverðarnesi. Mjöll Einarsdóttir sagði frá því að upphafið að golfiðkun kvenna hafi byrjað þegar Hanna Gísladóttir fékk nokkrar konur til þess að spila völlinn en hún spilaði sjálf mikið golf og var meðlimur í GR. Þær léku allar brautir nema Réttina, núverandi 2.braut af því að hún var svo erfið.

 

Segja má að Mjöll hafi fljótlega tekið við forystuhlutverki í kvennastarfinu  og að öðrum konum ólöstuðum átti hún stóran þátt í að konum í golfklúbbnum fjölgaði. Hún hreinlega dró konurnar úr sumarhúsum sínum og út á völl til þess að taka þátt í golfmótum og gekk á undan með góðu fordæmi að konur tækju þátt í sjálfboðaliðastarfi innan klúbbsins. Hún stýrði kaffisölu á Öndverðarnesdeginum og var í forsvari fyrir ýmsar fjáraflanir í þágu klúbbsins. Haldin voru böll til að afla fjár fyrir golfskálann sem vígður var árið 1994. Mjöll var hvatamaðurinn að þeim ásamt nokkrum konum, þær elduðu matinn, seldu drykki á barnum og önnuðust allan frágang. Allt var þetta gert af hugsjón og fyrir fólkið í Öndverðarnesi enda var golfvöllurinn sameiningartáknið.

 

Árið 1977 var fyrsta kvennamótið haldið. Aðdragandinn að því var árið 1976 þegar nokkrar konur úr golfklúbbnum Keili buðu Mjöll og konum í GÖ að koma á Keilisvöllinn og fá tilsögn í golfi hjá Þorvaldi Ásgeirssyni golfkennara. Hún var snögg að hóa saman hóp kvenna í kennsluna. Eftir golfkennsluna varð Mjöll að orði, „Blessuð vertu, svo býð ég ykkur einhvern tímann í golf í Öndverðarnesi“. Ekki var nú  Mjöll viss um að þær þekktust boðið en það gerðu þær strax árið eftir og var það upphafið að klúbbakeppni á milli þessarra klúbba.

 

Klúbbakeppnin gekk undir nafninu  Mjallarmótið. Öndverðarneskonur kölluðu sig Endur en Keiliskonur Sveiflur og skiptust þær á að halda klúbbakeppni á Keili og í Öndverðarnesi allt til ársins 2003. Konurnar í GÖ buðu yfirleitt konum úr golfklúbbi Selfoss með þegar mótið var haldið í Öndverðarnesi þar sem Endurnar voru töluvert fámennari en Sveiflurnar. Mjöll bar hitann og þungann af mótunum í Öndverðarnesinu. Bæði hvað snerti verðlaun og allan viðgjörning  þar sem kúturinn Kalli var í aðalhlutverki. Kalli var vínkútur sem Mjöll fyllti af guðaveigum og nutu konurnar þess í ríkum mæli eftir mót. Verðlaunin í mótunum í Öndverðarnesi voru glæsileg enda lagði Mjöll mikinn metnað í að hafa þau vegleg. Hún fór ekki hefðbundnar leiðir í  verðlaunaveitingu og flottustu verðlaunin voru ekki alltaf veitt þeim sem spiluðu best. Veglega vinninga fengu t.d. þær sem voru með flestar sjöur, hæsta skor á holu, sú sem bætti sig mest á milli hringja eða var með hæsta brúttóskor. Það var ætíð tilhlökkun eftir mót að heyra um hvað var keppt, þar sem Mjöll gaf ekkert upp fyrr en í lokin. Þetta vakti ætíð kátínu. Að auki var keppt um farandbikar þar sem 4 bestu með forgjöf töldu. Sú skemmtilega hefð skapaðist í Öndverðarnesi að karlarnir sáu til þess að völlurinn væri í góðu ástandi á leikdegi og Einar Einarson sá ætíð um að skrifa skorkortin og gera upp úrslitin í mótunum.

 

Síðar bættust við fleiri vinkvennamót. Árið 1995 hófst klúbbakeppni  við Kiðjaberg og  allar götur síðan hafa hafa konur í Kiðjabergi att kappi við konur í Öndverðarnesi um farandbikar. Samstarfið er afar farsælt og ánægjulegt að hitta konur úr nágrannaklúbb okkar og eiga með þeim góðar stundir að  móti loknu.

 

 Vinkvennamót við golfklúbbinn Odd og golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar hófust árið 1997. Árið 2004 var síðast keppt við GO en árið 2007 við GKG.

 

Fyrstu ár klúbbsins voru mótin aðallega karlamót enda fáar konur í golfi. Jónsmessumót klúbbsins hefur verið haldið frá 1974 og þar stigu margar konur sín fyrstu skref í golfi. Leikfyrirkomulagið var lengi þannig að karlarnir slógu brautarhöggin en konurnar púttuðu. Aðalkeppnin snerist um púttmeistarann og voru veitt verðlaun fyrir 1.,2 og 3. sæti í pútti.  Það var jafnvel farið í bráðabana um 3. sætið.  Oftast var mikið fjör og hörku keppni í gangi, ekki síður hjá körlunum sem kepptust við að skila boltanum sem næst holu svo konan púttaði sem fæst högg. Mjöll Einarsdóttir gaf fyrsta púttbikarinn sem keppt var um.

 

Eitt af elstu karlamótunum í klúbbnum var John Humphrey mótið. Árið 1982 var í fyrsta sinn haldið John Humphrey mót fyrir konur og  gaf Guðrún Humphrey kona Johns verðlaunastyttu sem nefndist Mrs. Humphreysstyttan. Þennan bikar gátu aðeins konur í GÖ unnið og var hann farandbikar og aðeins til eignar ef sami aðili ynni hana fimm sinnum.

 

Fyrsta opna kvennamótið var haldið árið 1988. Það var mótið, „Með á nótunum“  sem Kristín Guðmundsdóttir hafði veg og vanda af. Iðnaðarbankinn styrkti golfmótið í upphafi en við samruna bankanna breyttist það í Íslandsbankamótið. Keppt var í þessu móti til ársins 1997.

 

Frá árinu 1994 hefur Hattamótið verið órjúfanlegur hluti af kvennastarfi klúbbsins. Gísli Dagsson lét svo ummælt um fyrsta mótið að þetta mót væri nokkurs konar tískusýning með tilbrigðum og sveiflu. Frá árinu 2000 gaf  Ingibjörg (Bogga) Guðlaugsdóttir eigandi  Fröken Júlíu og golffélagi í GÖ  öll verðlaun allt fram til ársins 2018 þegar verslunin hætti. Frá þeim tíma hefur BYGG verið styrktaraðili mótsins.

 

Árið 2010 ákvað GÖ að senda öldungasveit í sveitakeppni GSÍ sem halda átti á Akureyri. Þá tóku nokkrar konur sig saman og fóru þess á leit við klúbbinn að hann sendi einnig öldungasveit kvenna 50 ára og eldri. GÖ gat að vísu ekki státað af lágforgjafakonum en nokkrar höfðu tekið þátt í sveitakeppnum með sínum klúbbum í bænum og voru reyndir golfspilarar. Beiðnin var samþykkt og var kvennasveitin skráð í 2. deild. Þar sem bara tvö lið voru skráð til þátttöku fór kvennasveitin sjálfkrafa upp í 1.deild. Næstu 7 ár voru sannkölluð gullaldarár kvenna sveitarinnar sem spilaði  fimm  sinnum í 1.deild. Fyrstu öldungasveit kvenna skipuðu, Björk Ingvarsdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Kristín Þorvaldsdóttir, Soffía Björnsdóttir og Þuríður Jónsdóttir. Liðsstjóri var Hafdís Helgadóttir.

Gísli Dagsson formaður klúbbsins var duglegur að hvetja konur til þess að ganga í klúbbinn og að aukin þátttaka kvenna í klúbbnum þyrfti að endurspeglast í stjórn hans. Hafdís Helgadóttir var fyrst kvenna  kosin í stjórn árið 1987 og sat samfleytt í stjórn sem ritari, gjaldkeri eða varaformaður til ársins 2012. Hafdís var mjög drífandi í kvennastarfinu og varð fyrsti formaður  nýstofnaðar kvennanefndar árið 1999 og gegni því starfi í 12 ár.   Hún var einnig fyrsti liðstjóri kvennaliðs Öndverðarness sem tók þátt í klúbbakeppni GSÍ árið 2011. Þá gegndi hún starfi framkvæmdastjóra klúbbsins eitt ár.

 

Sigríður Þorvarðardóttir var kosin í stjórnina árið 1988.  Hún sat í stjórn í 16 ár, þar af gjaldkeri í 12 ár. Þá sat Björk Ingvarsdóttir  8 ár í stjórn og Guðlaug þorgeirsdóttir núverandi stjórnarmeðlimur hefur verið í stjórn frá árinu 2013. 

Frá árinu 1988 hafa alltaf tvær konur setið samtímis í stjórn fyrir utan árin 2012-2014.

 

Konur í GÖ voru ekki bara virkar í stjórnarsetu. Nokkrar konur hafa unnið sem vallarstarfsmenn ásamt eiginmönnum sínum við slátt og aðra umhirðu. Má þar að nefna Svanhvíti ( Sunný) Ásmundsdóttur, Steingerði Hilmarsdóttur, Guðrúnu Sigríði (Gunnu Siggu) Eiríksdóttur og Margréti (Möggu) Sigurðardóttur. Lengst var þó Magga hans Ödda en hún starfaði á vellinum frá árinu 1991-2002.

 

Þuríður Jónsdóttir  var formaður kvennanefndar 2008-2015. Hún kom Biotherm mótinu á laggirnar sem er eitt stærsta mót klúbbsins og hefur löngum verið eitt glæsilegasta kvennamót landsins. Í hennar tíð var hattamótinu breytt í texas scramble mót þar sem konur í GÖ gátu boðið vinkonum að spila og karlarnir í klúbbnum komu sterkir inn með hinn ómissandi Rabbabar. Þá stóð Þurý fyrir kvennatímum á fimmtudögum þar sem konur í klúbbnum hittust og spiluðu saman.

Sigríður Björnsdóttir tók við formennsku af Þurý árið 2016. Undir hennar stjórn hefur kvennastarfið blómstrað enn frekar. Kvennatímarnir voru færðir yfir á föstudaga og jókst þátttakan við það. Spilaðar eru 9 holur og bryddað upp á margs konar leikjafyrirkomulagi. Eftir golfið borða konurnar saman í skálanum og njóta samverunnar. Árið 2017 tók kvennanefndin upp á þeirri nýbreytni að fara í haustferð.  20 konur skráðu sig til leiks og var farið  að Hellishólum. Ferðin heppnaðist vonum framar enda alltaf gleði og gaman þar sem GÖ konur eru á ferð. Haustferðinar hafa síðan verið fastur liður í kvennastarfinu. Sífellt fleiri konur hafa tekið þátt í haustferðinni og var ferðin haustið 2023 fullbókuð á örskömmum tíma.

Ný kynslóð golfkvenna í GÖ hefur nú tekið við undir  stjórn Esterar Ottesen Hauksdóttur, Berlindar Helgadóttur og Ágústu Óskarsdóttur. Konur í GÖ geta litið björtum augum til framtíðar því undir  sterkri stjórn kvennanefndarinnar mun kvennastarfið sannarlega halda áfram að vaxa og dafna.