Mannvirki

Fyrstu áform um uppbyggingu og breytingar á húsakosti í Öndverðarnesi eftir að félög múrara höfðu keypt jörðina Öndverðarnes í Grímsnes og Grafningshreppi árið 1968 er að sjá í teikningum eftir Ásmund Ólason og Óla Jóhann Ásmundsson frá mai 1971 sem gera ráð fyrir  að breyta hlöðu og fjósi sem fyrir var í barnaheimili eða gistiheimili. Þar var gert ráð fyrir samkomusal í fjósinu en í hlöðuna átti að steypa milligólf og setja útleiguherbergi á tveimur hæðum.

Til sanns vegar má færa að gæfa golfklúbbsins hafi snúist honum í hag að ekkert varð úr þessum áformum

.



Byggingarsaga Golfklúbbs Öndverðarnes hefst 1977 þegar farið var að huga að því að reisa golfskála  við völlinn. Aðstöðuleysi var farið að gera vart við sig en á þessum tíma var teigur 1. holu þar sem nú er flöt 17. brautar u.þ.b. og spiluð niður að borholu á 8. braut.ca. Þegar kom til tals að reisa golfskála var honum valinn staður við teig núv. 4. brautar. Þetta var gert meðal annars til að samnýta bílastæði við sundlaug. Þarna var klúbburinn enn að slíta barnsskónum og því lítið um fjármagn.

Tveir byggingameistarar sem fyrirferðamiklir voru á markaðnum á þessum tíma ákváðu að gefa klúbbnum efni til skálans. Þetta voru Þórður Þórðarson múrarameistari og Þórður Kristjánsson trésmíðameistari. Þarna var sleginn tónninn í því sem sem síðar kom og klúbburinn hefur ætíð orðið þeirrar gæfu aðnjótandi síðan hvað félagar, fyrirtæki og aðrir hafa verið ósérhlífnir með gjafir og vinnuframlag við hvers konar þarfaverk alla tíð.

Félagar í golfklúbbnum reistu síðan skálann og eins og áður er sagt var honum valin staður þar sem nú er 4. teigur karla. Golfskálinn sem var 40m² var tekinn í notkun eftir 3 vikur að framkvæmdir hófust, þó svo að hann hafi ekki verið fullkláraður. Á næstu árum var svo unnið við að innrétta skálann.  Því miður er ekki til teikning af þessum skála en hann var innréttaður þannig að við innkomu á suðurgafli var snyrting til vinstri, kappleikjaborð til hægri og síðan eitt rými með bar.

Á þessum tíma þótti þetta vel í lagt. Þegar líða tók á áttunda og  níunda áratug síðustu aldar hafði fjölgað verulega í klúbbnum og sýnt þótti að skálinn var of lítill.

Ekki eru frekari sögur af byggingaráformum fyrr en árið 1985 sem þáverandi formaður Gísli Dagsson kemur að máli við mig (Ingi Gunnar Þórðarson) og spyr hvort ég sé tilbúinn að gera tillögur að nýjum golfskála. Rætt var um stærð og staðsetningu skálans. Á þessum tíma sáu menn ekki fyrir að nokkurn tíma yrði gerður 18 holu völlur á svæðinu. Úr varð að gera skildi tillögu að 70-80m² skála hugsanlega með geymslu sem þá gæti verið í kjallara að hluta.

Til varð tillaga sem kynnt var 1986 að 78 m² skála að grunnfleti með 35m² kjallara. Þessi tillaga gerði ráð fyrir að skálinn yrði staðsettur á nánast sama stað og þáverandi skáli. Á efri hæð var gert ráð fyrir snyrtingum, fundarherb., afgreiðslu/bar og veitingasal. Í kjallara var gert ráð fyrir geymslurýmum. Af einhverjum orsökum varð ekki farið lengra með þetta mál að sinni og eru orsakir þess væntanlega fjárhagslegar sem og staðsetning og þróun vallarins.


Á þessum tíma var hafin umræða um hvort ekki væri rétt að færa starfsemina upp á bæ. Skiptar skoðanir voru um málið og voru aðal rökin gegn þvi að aðstaðan fjarlægðist sumarhúsabyggðina sem á þessum tíma var einungis norð-vestan við völlinn og nálægðina við sundlaugina. Ekki sáu menn fyrir sér 18 holu völl á þessum tíma og töldu betra að vera með góðan 9 holu völl en að vera með 18 holu völl sem þeir réðu ekki við að halda í góðu ástandi.

Málinu var haldið vakandi og árið 1987 er ég beðin að gera tillögu að ca. 150m² skála að grunnfleti með kjallara. Mikil umræða var um aðstöðuleysi og mikil þörf fyrir betra húsnæði og einnig var komin inn í umræðuna aðstaða fyrir starfsmann.

Sýnt þótti að þáverandi staðsetning skála myndi ekki henta og töluverð umræða fór fram um hvar reisa skyldi nýjan skála. Ýmsar hugmyndir komu fram um staðsetningu eins og að byggja á þáverandi bílastæði. Gerð var tillaga að skála sem áætlað var að reisa á reit norðvestan við þáverandi skála sem væri þá í tengslum við veginn og þáverandi bílastæði.

Tillagan sem er frá 1987 gerir ráð fyrir 150m² húsi að grunnfleti með 150m² niðurgröfnum kjallara að hluta en gengið inn á hann frá norð-vesturhlið. Á efri hæð átti að rúmast snyrtingar, forrými með fatahengi, fundarherbergi, eldh./bar og veitingasalur fyrir ca. 60 manns. Á neðri hæð var gert ráð fyrir starfsmannaíbúð, frístundarsal, og geymslurýmum. Athyglisvert er að strax á þessum tíma er farið að hugsa fyrir aðstöðu handa starfsmanni.


Skiptar skoðanir voru um málið og þá helst hvort byggja skyldi nýjan skála á því svæði sem skálinn var þ.e. í nágrenni við sundlaugina eða hvort byggja skyldi upp á bænum og nýta betur þau mannvirki sem þar voru fyrir. Man ég t.d. eftir mjög heitum umræðum um þetta og var þáv. formaður Gísli Dagsson mjög tregur til að fara með starfsemina upp á bæ. Aðal rökin fyrir því að flytja starfsemina upp á bæ voru að þarna væru fyrir mannvirki sem hægt væri að nýta sér og í tiltölulega góðu ástandi sem hægt væri að breyta með minni tilkostnaði auk þess sem golfklúbburinn var þegar farinn að nýta sér hlöðuna og fjósið fyrir tækjageymslu o.fl.

Félög múrara nýttu sér einnig aðstöðuna við ýmis tækifæri eins og t.d. svo kallaðan Öndverðarnesdag þar sem haldið var opið hús með kaffiveitingum og kynntu meðlimir golklúbbsins golfið við þetta tækifæri sem örugglega dró marga inn í íþróttina. Þetta voru vel sóttar samkomur og sáu margir möguleikana í þeim mannvirkjum sem fjósið og hlaðan voru.

Umræðan hélt áfram án þess að ákvarðanir voru teknar um byggingu nýs skála. Loks eftir miklar  umræður og skoðanaskipti er fallist á það um 1989-1990 að skoða möguleikana á að færa aðstöðuna upp á bæinn. Húsin voru mæld upp og teiknuð. Fyrsta tillaga að golfskála í hlöðunni er frá des 1990. Þar er gert ráð fyrir að steypa milligólf í hlöðuna, lyfta þaki hennar að hluta og byggja kvisti á báðum vængjum þaks og innrétta golfskála á efri hæð. Tillagan gerir ráð fyrir  ca. 150 m² skála með snyrtingum, anddyri, fundarherb., eldh./bar og veitingasal. Einnig er gert ráð fyrir sem fyrr vélageymslu undir skálanum en botnplata var steypt í hlöðuna ca. 1985 en þar var áður moldargólf.  Athygli vekur að strax á þessum tíma dreyma menn um að byggja ofan á turninn.


Fljótlega sjá menn möguleikana sem liggja í þessum húsum og unnið er áfram á þeim grundvelli.

Hugmyndin er þróuð áfram og í ágúst 1991 liggur fyrir heilsteypt tillaga að nýtingu alls hússins þ.e. hlaða (golfskáli-vélageymsla), fjós veitingasalur með eldhúsi/bar o.fl. Þar er ekki gert ráð fyrir að byggja ofan á fjósið heldur að nýta það eins og það kemur fyrir. Í mjólkurhúsinu er gert ráð fyrir að innrétta litla íbúð fyrir starfsmann.


Þarna er verulegur hugur kominn í menn og ákveðið að ráðast í að steypa milligólf í hlöðuna. Um vorið 1992 er ráðist í að lyfta þakinu á henni og veturinn þar á eftir var unnið sleitulaust við innrétta skálann. Stefnt var að því að hafa skálann tilbúinn á 20 ára afmæli klúbbsins.


Margar vinnustundir voru inntar af hendi hjá klúbbfélögum sem gáfu vinnu sína í verkefnið eins og ævinlega hefur verið þegar fyrir liggja verkefni sem menn sjá til framfara.

Framkvæmdum við skálann lauk 14. maí 1994 og er skálinn vígður þá um vorið. Við það tækifæri hélt þáverandi formaður Gísli Dagsson ræðu og sagði að með þessi húsakynni þyrfti klúbburinn ekki að hafa áhyggjur af húsnæðisleysi næstu hundrað árin.


Sannaðist þarna að enginn er spámaður í eigin föðurlandi.

Almenn ánægja var með flutninginn og gekk starfið vel næstu árin á eftir. Ekki voru þó liðin mörg ár áður en raddir voru farnar að heyrast um að stækka þyrfti skálann, því við stærstu viðburði eins og stóra GÖ mótið um verslunarmannahelgina var húsnæðið of lítið til að rúma alla þátttakendur.

Eins og sjá má af þeim tillögum sem þegar höfðu komið fram  var verið að velta ýmsum möguleikum fyrir sér. Í fyrstu gengu þær tillögur út á að nýta fjósið sem samkomusal og einnig að innrétta íbúð fyrir starfsmann. Það var álit manna að skálinn sem slíkur væri nægilega stór fyrir daglegan rekstur, en við stærstu tækifæri vantaði stærri sal. Málin voru rædd á komandi árum og reynt að finna leiðir til að ýta þessum hugmyndum í framkvæmd án þess að úr yrði.

Ýmislegt var þó framkvæmt s.s. að steypt var gólf í fjósið yfir flórgryfjur þannig að heill gólfflötur fékkst. Hafa ber í huga að opið var úr gólfi niður í haughúsið sem er núv. golfbílageymsla. Þetta  er gert árið 2000 ca. Árið 2003 taka nokkrir félagar sig til með leyfi eiganda hússins og hreinsa út úr haughúsinu, steypa gólf í það og mála. Þetta var gert sem golfbílageymsla. Síðan var steypt plata fyrir framan haughúsið.

Árið 2004  tók Golfklúbburinn þátt í að endurnýja Íbúðarhúsið við skálann. Þetta var mikil framkvæmd þar sem rifið var innan úr öllu húsinu, gólfplata brotinn og ný steypt inni á það, húsið einangrað og innréttað upp á ný. Gert var  samkomulagi milli klúbbsins og eigenda jarðarinnar að klúbburinn fengi aðstöðu í íbúðarhúsinu fyrir starfsmann sinn. Lögðu klúbbfélagar mikla vinnu í þetta verk. Í húsinu var gert ráð fyrir tveimur íbúðum og átti golfklúbburinn að fá afnot af stærri íbúðinni á meðan að golfvertíð stæði.


Einnig var skoðað hvort ekki væri hægt að byggja skýli fyrir æfingasvæðið. Gerð var tillaga að því og var þá gert ráð fyrir nokkrum lokuðum golfbílastæðum  sem hugsanlega væri hægt að kaupa sig inn í. Um þetta voru skiptar skoðanir og töldu sumir að það væri ekki hlutverk golfklúbbsins að sjá félagsmönnum fyrir geymslu undir golfbíla sína.


Umræðan hélt áfram án þess að til framkvæmda kæmi. Árið 2003 kemur fram tillaga um að byggja ofan á fjósið og gera milligólf í það með samkomusal á sama fleti og golfskálinn. Þessi tillaga gerði ráð fyrir inndreginni hæð yfir fjósinu. Mismunandi  skoðanir voru uppi um málið eins og gengur og stóð kostnaður við verkefnið í mönnum. Ljóst var á þessum tíma að stækka þyrfti skálann, spurningin var einungis um hvaða leið yrði farin.


Árið 2004 er haldinn mikill stefnumótunarfundur þar sem öllum klúbbmeðlimum er boðið. Tókst þessi fundur með afbrigðum vel og  út úr þeim fundi kom mikið stefnumótunarskjal sem unnið hefur verið eftir síðan. Þarna var t.d. látið sig dreyma um 18 holu golfvöll og sáu menn hann fyrir sér eftir ca. 15 – 20 ár. Strax á eftir varð alvarleg umræða um að stækka golfvöllinn í 18 holur. Í það verkefni var ráðist árið 2004 og nýr 18 holu golfvöllur er tekinn í notkun árið 2008. Eðli máls samkvæmt tók þessi framkvæmd mikla orku og fjármuni fyrir ekki stærri klúbb.

Síðan árið 2008 skeður hið fræga efnahagshrun á Íslandi. Nánast á einni nóttu var stór hluti iðnaðarmanna atvinnulausir. Þá voru það stórhuga menn í stjórnum múrarafélaganna sem datt það í hug hvort ekki væri snjallt að nýta mannskapinn í að byggja ofan á fjósið í stað þess að ganga um og mæla götur. Var þá tekin djörf ákvörðun um að ráðast í verkið.

Það er svo í 8. nov. 2008 sem byrjað er að rífa þakið af fjósinu. Steypt er ofan á veggi, milligólf er gert og húsinu var lokað eftir áramót. Allan veturinn 2009 er svo unnið inn í húsinu og er það svo tekið í notkun í byrjun maí 2009 á 35 ára afmæli golfklúbbsins. Óhætt er að segja að þetta hafi verið þrekvirki á þessum tíma þar sem mikil svarsýni ríkti í þjóðfélaginu. Þetta var einungis hægt með mikilli framsýni þeirra manna er stjórnuðu þá og mikilli sjálfboðavinnu múrara og annarra klúbbfélaga. Þarna ríkti einstakur andi samstöðu og fórnfýsi.


Á næstu árum var síðan unnið við að innrétta fjósið í þeirri mynd sem það er nú. Óhætt er að fullyrða að með þessum breytingum er Golfklúbbur Öndverðarnes í hópi þeirra golfklúbba á landinu sem ræður yfir hvað bestum húsakosti.

Þegar litið er á sögu húsnæðismála hjá Golfklúbbi Öndverðarnes þá einkennist hún af framsýni, áhuga og fórnfýsi klúbbfélaga auk þess sem klúbburinn hefur ætíð verið undir stjórn manna og kvenna með mikinn áhuga, óeigingirni og dugnaði þess fólks sem gefið hefur vinnu sína í stjórnarstörf. Óhætt er að segja að golfklúbbur Öndverðarnes hefur í gegnum tíðina verið driffjöður uppbyggingar og framfara í Öndverðarnesi.

Ekki má heldur gleyma því frábæra samstarfi sem verið hefur á milli eiganda jarðarinnar Öndverðarnes sem er Múrarameistarafélag Reykjavíkur og áður Múrarafélags Reykjavíkur sem nú er gengið í FIT Félag Iðn- og Tæknigreina. Þessi félög í gegnum Rekstrarfélag Öndverðarnes hafa stutt við klúbbinn í gegnum 50 ár og frábært samstarf hefur verið á milli þessara aðila í einu og öllu. Ber að þakka það.