Saga golfskála GÖ í gegnum fundargerðir aðalafunda

  • Tveir velunnarar og stærstu styrktaraðilar  golfklúbbsins gáfu efni til þess að reisa golfskála (þar sem nú er aftari teigur á 4. braut). Byrjað var á byggingunni í mars og hún reist á þremur helgum. Húsið var klætt að utan og plast sett í glugga. Gólfið var klætt með lausatimbri og teppi sett yfir. Var skálinn þannig nýttur um sumarið og ánægja golffélaga með gjörbreytta aðstöðu. Öll framlög MR og MMR  til klúbbsins fóru í þær framkvæmdir og einnig 700-800 tímar í sjálfboðavinnu.      

  • Áfram var unnið með klúbbhúsið. Það var klætt að innan og settar upp innréttingar. Bardiskur smíðaður og innrétting í eldhús. Einnig var smíðaður skenkur fyrir kappleikjanefnd. Sæti voru bólstruð og borð smíðuð. Gólfefni sett, dúkur, flísar og teppi. Þá var gengið frá salerni svo segja má að skálinn hafi verið nánast fullkláraður. Klúbbmeðlimir voru duglegir að gefa smáhluti til að lífga upp á hann. Í tilefni 10 ára afmæli Öndverðarness færði GOS þeim forláta klukku með hita- og loftþrýstimæli sem sett var upp í skálanum. Utandyra var smíðaður pallur á tvær hliðar ásamt tröppum. Ennfremur var grafið fyrir rotþró og hún tengd. Steypt var þvottaplan til þess að þvo kerrur og fleira. Síðan var svæðið umhverfis húsið tyrft og borið í stíga við skálann. Klúbburinn lagði 1.7 milljón  til byggingarinnar og velunnarar voru duglegir að leggja til efni. Strax á fyrsta ári  sáu menn að skálinn var of lítill  og það sárvantaði geymslurými. 

  • Unnið að lokafrágangi í skálanum. Sett voru opnanleg fög í glugga og hann málaður að utan. Í ræðu formanns á aðalfundi kom fram að nauðsynlegt væri að ráðast í kostnaðarsama aðgerð til þess að fá rafmagn í skálann. Bæði til raflýsingar og upphitunar. Verið væri að byggja félagsbústaði sem tengd verða rafmagni og athugandi væri að gera þetta samhliða.  Í golfskálanum var til sölu ýmis varningur og  veitingar voru seldar með lítils háttar álagningu ásamt vallargjöldum sem skilaði klúbbnum  400.000 kr. tekjum


  • Golfskálinn málaður að utan og gerði Ólafur A. Ólafsson það í sjálfboðavinnu með hjálp frá nokkrum félögum, hann gaf allt efni sem til þurfti. Örn Ingólfsson smíðaði nýja útidyrahurð á skálann. Grafinn var skurður frá dæluskúr á 9. braut (nú3.braut) að golfskála. Í hann verða lagðar lagnir fyrir heitt og kalt vatn ásamt rafmagni.  Kalda vatnið var hægt að tengja strax en hitt bíður frekari  undirbúnings. Í skálnum var selt öl og gosdrykkir ásamt sælgæti og golf varningi. Í Jónsmessumóti og fleiri stórmótum var meira viðhaft í veitingum.

  • Engar framkvæmdir voru í skála enda hafði hann verið stækkaður og endurnýjaður árið áður.

  • Nokkrar endurbætur voru gerðar á skálanum. Gömlu teppin tekin og ný lögð í staðinn. Allt efnið var gefið af Teppabúðinni. Einnig voru endurnýjuð húsgögn og sjónvarp keypt. Sem kom að góðum notum. Sett var niður ný rotþró sem var mun stærri en sú gamla svo stíflur ætti þá að heyra sögunni til. Allt umhverfi golfskálans var lagfært sem bætti mjög aðkomu að skálanum.

    Þetta ár var ákveðið að reisa nýjan  golfskála og stefnt að taka hann í notkun á 20 ára afmæli golfklúbbsins árið 1994. Ekki voru menn sammála um staðsetningu en  árið 1990  var tekin ákvörðun um  að nýta hlöðuna við Öndverðarnesbæinn eins og fram kom í tillögu Viðars Guðmundssonar og Einar Einarssonar til stjórnar golfklúbbsins.  Tillaga frá Viðari Guðmunds og Einari Einars í  okt. 1990.  

    1.     Láta hanna og teikna 18 holu golfvöll

    2.    Gerður nýr golfskáli í hlöðulofti með því að setja gólf í veggjahæð hlöðunnar. Lyfta þaki vesturhliðar hlöðunnar. Setja tvo kvisti á austurhlið, sitt hvorum megin við mæni á fjósi. Stækka glugga á göflum. Byggja verönd við vesturhlið og svari í framhaldi við suðurgafl.

    3.    Golfskálann má síðan tengja við fjósið fyrir miðju skálans með stiga.

    4.    Í fjósinu má annars vegar koma fyrir arinstofu með bar og billjard aðstöðu og hins vegar borðtennis-og leikaðstöðu fyrir börn og unglinga.(arinstofa hugsuð sem lokað rými og þeim einum ætlað sem hafa lykil).

    5.    Í haughúsi verði komið fyrir skápum og geymslum fyrir golfara, sturtum og sauna.

    6.    Gera  gamla golfskálann að bústað fyrir starfsmenn golfklúbbsins í framtíðinni.

    Ef þessar breytingar ganga eftir, breytist brautarröð á golfvellinum þannig að 7. braut verði 1.braut og 6. braut yrði 9. braut. Hlaðan yrði tilvalin miðstöð fyrir 18 holu golfvöll miðað við staðsetningu hennar, auk þess liggur æfingarsvæðið vel við. Tekið skal fram að skálagerð í hlöðu mun ekki skerða geymslurými frá því sem nú er.

    Við vitum að það er hugur í nokkrum félögum okkar að leggja fram sjálfboðavinnu til þess að þetta megi allt verða að veruleika og þá helst að vetrarlagi og það strax í vetur.

    Hluti af þessu tillögum yrði að að sjálfsögðu á hendi Öndverðarnessnefndar (enda eru tillögumenn báðir í Öndverðarnessnefnd,) svo sem framkvæmdir í fjósi. Sú hugmynd hefur komið fram að gera gólf í súrheysturni í sömu hæð og svalir við golfskála, síðan smíða stiga upp í útsýnishús sem yrði byggt ofan á turninn.

    Þetta mun líklega verða nokkurra ára áætlun en æskilegt að golfskálinn komist í gagnið á svona 2-3 árum.

    Þeir félagar voru stórhuga og sýndu mikla framsýni þegar þeir lögðu tillöguna fram. Ingi Gunnar Þórðarson var  síðan fenginn til þess að teikna klúbbhúsið og húsið var vígt á 30 ára afmæli golfklúbbsins   

    Strax þetta ár var hafist handa við nýja klúbbhúsið og var gólfið á hlöðuloftinu steypt og slípað. Steypustöðin sendi steypubíl en BM Vallá gaf steypuna. Steinullarverksmiðjan gaf steinullina í gólfið. Öll vinnan var unnin í sjálfboðavinnu af klúbbfélögum.   


  • Áfram var haldið með skálabygginguna. Sent var bréf til félagsmanna og óskað eftir áheitum. Menn tóku vel í þessa ósk og söfnuðust áheit frá 100 félagsmönnum. Menn voru rausnalegir í framlögum og  ekki bara félagsmenn. Klúbbhúsið verður 180 fermetrar að stærð og mun nýtast undir margvíslega starfsemi. Ingi Gunnar hefði m.a.  hannað íbúð  fyrir starfsmanninn í mjólkurhúsinu. Hugmyndir komu fram að hafa félagsmiðstöð í hlöðinni fyrir fólkið á svæðinu og í haughúsinu mætti koma fyrir sturtuaðstöðu og hafa útsýnisturn í súrheysturninum.  Þröstur Eggertsson fór eina helgi austur og reif þakið af. Síðan voru fengnir smiðir í þakvinnuna ásamt sjálfboðaliðum. M.a. þurfti að hækka þakið. Skálabyggingin hefur þurrkað upp sjóð félagsins og þurfti að taka 500.000 kr. lán. Ekki á þó að safna skuldum vegna byggingarinnar.  

  • Sími var lagður í golfskálann og nú var hægt að hringja og skrá sig í mót.Vinnan við nýja klúbbhúsið gekk vel. Hlaðnir voru milliveggir við salerni og þeir pússaðir.Loftin voru panelklædd og gólf flisalögð. Við vesturhlið  hússins var smíðaður stór pallur og gengið frá rotþró. Tekið var inn rafmagn ásamt heitu og köldu vatni. Mikið verk er þó óunnið s.s. bílastæðamál, innréttingar og  kaup á húsgögnum. Ekki væri boðlegt að nota í þessa glæsilegu byggingu gamla kirkjubekki úr Fossvogskirkju.

  • Gengið var frá snyrtingum í nýja skálanum og veggir flísalagðir. Klósett og vaskar tengdir. Raflagnir lagðir og gengið frá veggjum í kappleikja herbergi og í anddyri. Öll þessi vinna fór fram utan golf tímabilsins.

  • Nýr golfskáli var vígður á 20 ára afmæli klúbbsins 11. júní að loknu Þjóðhátíðarmótinu. Hann var byggður á hlöðulofti gömlu hlöðunnar í Öndverðarnesi. Steypt var milligólf, þak hlöðunnar var tekið  af og reist á ný með sama halla og við endana voru setti kvistir. Fjöldi sjálfboðaliða vann hörðum höndum í sjálfboðavinnu og margir velunnarar klúbbsins lögðu til efni  og ýmsa aðra hluti.  Öllum velunnurum var boðið ásamt klúbbmeðlimum. Veislugestir voru nálægt 200 manns. Gjörbylting fyrir klúbbmeðlimi. Nú var rúm fyrir alla sem vildu vera við verðlaunaafhendingar. Allt starf kappleikjanefndar varð auðveldara með tilkomu skálans. Eldhús var stærra og betur búið tækjum. Snyrti- og hreinlætisaðstaða gjörólík svo eitthvað hafi verið nefnt. Ráðskona í skálanum var Margrét Sigurðardóttir og sá hún ásamt manni sínum um veitingasölu ásamt innheimtu félags- og vallargjalda. Gamli skálinn var seldur á 300.000 kr. til Öndverðarness sem veiðihús við Hvítá.  Örn Karlsson sá um að smíða öll borðin í skálanum.  Hann keypti límtrésplötur í Húsasmiðjunni, sagaði niður í réttar stærðir, pússaði og lakkaði.  Fæturna undir borðin keypti hann í Stálhúsgagnagerð Steinars á 5.000 kr. Úr þessu urðu frábær borð sem enn eru í notkun í gamla hlutanum.  

  • Golfskálinn var málaður að utan bæði veggir og verönd. Skipt var um glerlista vegna leka. Byrjað var á hitalögn í skálann um vorið og því lokið um mitt sumar. Lítill hiti var skálanum þar sem dælan var of kraftlítil. Keypt var önnur og kraftmeiri dæla sem dugði bæði fyrir golfskálann og Önderðarnesbæinn. Marinó Jóhannsson vann þetta verk nánast án endurgjalds með góðri hjálp nokkurra klúbbfélaga. Öndverðarnesnefndin keypti dælubúnaðinn. Í skálann voru keyptir þrír nýir sófar og sófaborð og einnig sett gluggatjöld fyrir alla glugga sem jók hljóðvist. Í eldhús voru keypt ýmis áhöld.

  • Engar stórar framkvæmdir  voru við golfskálann utan eðlilegs viðhalds. Gera þurfti svefnaðstöðu fyrir starfsmanninn og var því norðurendi skálans lokaður af. Keyptar voru hljómflutningsgræjur og nýtt sjónvarp. Veitingareksturinn lenti strax  í ógöngum þegar á fyrsta mótsdegi sumarsins 25. maí þegar starfsmenn frá yfirvöldum á Selfossi komu og sögðu að ekki hafi verið aflað tilskilinna leyfa fyrir veitingasölu í skálanum. Stjórn GÖ náði ekki að bregðast strax við þessari kröfu og viku seinna komu eftirlitsaðilar aftur og gerðu upptækar nokkar flöskur af áfengi og bjór og kærðu þessa sölu til sýslumanns. Starfsfólk skálans og formaður voru síðar kölluð til yfirheyrslu bæði á Selfossi og í Reykjavík. Að lokum fékkst veitingaleyfi en ekki vínveitingaleyfi þar sem eldhúsið var ekki nægilega stórt, ekkert lokað rými var fyrir matargerð. Að auki var engin uppþvottavél, of fáir vaskar, engin vifta yfir eldavél og enginn ræstiskápur. Þar sem vínveitingaleyfið fékkst ekki brugðu menn það á ráð að fá tækifærisleyfi í stærstu mótunum en slíkt leyfi kostaði 10-15.000 kr. í hvert sinn.

  • 1998 - Keyptar voru innréttingar í kappleikjaherbergi  og gengið var frá glugga í kappleikjaherbergi þar sem skortafla móta verður sýnd. Einnig var lokafrágangur gerður í eldhúsi. Þá var skálinn málaður bæði að innan og utan og borið á pallinn.

  • Engar framkvæmdir í skála en nýr ísskápur var keyptur í eldhús.

  • Rifinn var niður veggur í golfskála sem settur hafði verið upp til bráðabirgða vegna svefnaðstöðu starfsmanns.

  • Lokið var við að eldverja loft á vélageymslu og súlur í fjósi að kröfu eldvarnareftirlits. Hitalögn var lögð í vélageymslu og fjós. Golfskálinn var málaður  að utan og tréverk fúavarið. Kæliborð var keypt til þess að auka fjölbreytni í veitingum.

  • Golfskálinn málaður að innan. Meiri kröfur um eldvarnir í skálanum komu frá eldvarnareftirliti og það var framkvæmt  sem þurfti.

  • Keypt voru ný eldunartæki. Ölkælir færður fram fyrir afgreiðsluborð.

  • Keypt voru 4 borð til þess að hafa úti á palli.

    Ingi Gunnar teiknaði stækkun á golfskála. Í lok árs var búið að ljúka við uppsteypu á húsinu. Golffélagar unnu ómetanlega sjálfboðavinnu við bygginguna. Haldin var skrá yfir vinnustundir golffélaga og voru þeir  578 vinnudaga sem segja má að séu 2 ársverk. Velunnarar klúbbsins í byggingageiranum lánuðu mót fyrir uppsláttinn klúbbnum að kostnaðarlausu. MR og MMR lögð hvort um sig 10 milljónir til byggingar golfskálans.     

  • Unnið var við framkvæmdir í golfskálanum og þeim að mestu lokið á efri hæðinni með ómetanlegu framlagi klúbbfélaga en 62 félagar lögðu á  milli 4-5 þúsund vinnustundir til þess að svo mætti verða. MR og MMR lögðu líka hærri upphæð en gert var ráð fyrir eða um 15 milljónir króna.  Þórður í Flísabúðin lagði  klúbbnum til  gólfflísarnar með afslætti gegn vallargjaldi  fyrir sig og konuna í tiltekinn tíma.  Keypt var þvottavél í eldhús kr. 560.000kr.

  • Smíðuð var geymsla við hlið eldhús. Afmarkað var rými fyrir snókerborð í fjósi og það málað. Kaffistofa  var gerð fyrir starfsmenn í fjósinu og salernisaðstaða sem golffélagar geta nýtt þegar skálinn er lokaður.  

  • Steypt var  plan fyrir framan vélageymsluna og gengið frá þvottaaðstöðu fyrir golfkerrur.

  • Tæplega 20 manna hópur sjálfboðaliða undir stjórn Þorleifs Magnússonar, Péturs Hilmarssonar, Arnar Karlssonar, Sigurðar Heimis Sigurðssonar og hönnuðarins Inga Gunnars Þórðarsonar  unnu við að rífa gamla pallinn og endurbyggja. Vinnu við pallinn að mestu lokið á vinnudaginn 14. maí. Jafnframt var steypt stétt við skálann og planið malbikað. Efniskostnaður var greiddur af Múrarameistarafélaginu og FIT. 

  • Skálinn var lagfærður og ný tæki sett í eldhúsið