Golfklúbbur Öndverðarness 50 ára
Samstaða
Undirrituðum f.v formanni Múrarafélags Reykjavíkur var boðið að lýsa upplifun sinni af samhug og góðri samstöðu Múrarafélags Reykjavíkur, Múrarameistarfélags Reykjavíkur og stjórnar Golfklúbbs Öndverðarness sem hefur frá upphafi haft frumkvæði að bættri aðstöðu til golfiðkunar í takt við það besta sem góðir golfvellir hafa uppá að bjóða .
Á þessum tímamótum 50 ára afmæli Golfklúbbs Öndverðarness er fyrst að nefna það mikla gæfuspor sem stigið var þegar múrarasamtökin keyptu Öndverðarnesið, orlofsjörð múrarafélaganna í Grímsneshreppi. Öndverðarnes var keypt 1. maí 1968, á tímum stórfelldra gengisfellinga og atvinnuleysis. Að þetta reyndist framkvæmanlegt sýnir hversu góð samstaða Múrarafélags Reykjavíkur og Múrarameistarafélags Reykjavíkur varð félagsmönnum og fjölskyldum þeirra til góðs þrátt fyrir að á brattan hafi verið að sækja.
Félögin hafa verið svo lánsöm að hafa framsýna og stórhuga félaga, sem lögðu sig fram um að nýta hina góðu aðstöðu til félagslegrar afþreyingar og skemmtilegs mannlífs í leik og starfi sem skapaðist við kaup félaganna á Öndverðarnesi.
Góð félagsleg aðstaða var sköpuð með gerð golfvallar, golfskála, (Gamli golfskálinn Mynd 22. maí 1993) vatnsbóla, vatnslagna, sundlaugarbyggingar, byggingu orlofsheimila, rafvæðingu svæðisins, byggingu veiðihúss, aðstöðu fyrir hestamenn, kartöflugarða, skógrækt o.fl.
Golfklúbbur Öndverðarness var stofnaður 9. apríl 1974 fyrir frumkvæði nokkurra dugmikla og áhugasamra einstaklinga innan múrarafélaganna. Driffjaðrir klúbbsins voru frá upphafi Ástráður Þórðarson, Friðrik Andrésson (fyrsti formaður klúbbsins ) og Gísli Dagsson síðar formaður til margra ára.
Minnistætt er dugnaður og brennandi áhugi Gísla Dagssonar formanns klúbbsins er hann hóf að hanna og fullvinna í smáatriðum eftir venjulegan vinnutíma hið græna og fallega golfmerki Golfklúbbs Öndverðarness sem nú prýðir m.a skorkort klúbbsins og fána Golfkúbbs Öndverðarness sem Ástráður Þórðarson múrarameistari dró að hún í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn 11. júní 1994.
Klúbburinn hefur frá upphafi haft úrval áhugasamra félaga karla og kvenna til að taka sæti í stjórn klúbbsins og sjálfboðaliða sem hafa tekið til hendinni við uppbyggingu vallarins sem var 9 holur lengst af á 25 hektara spildu en var síða bætt við 9 holum 2008 til viðbótar á 34 hektara spildu. Völlurinn er nú rekinn sem 18 holu golfvöllur og nýtur viðurkenningar sem slíkur.
Uppbyggingu vallarins er lýst í stórmerkri bók Brynjólfs Ámundasonar múrara Safn til sögu Öndverðarness þar er farið ítarlega yfir upphaf og sögu Golfklúbbs Öndverðarness á bls 86-115.
Undirstaðan fyrir hraðri uppbyggingu aðstöðu í Öndverðarnesi var hinn góði andi félaganna frá upphafi.
Vinnusemi og dugnaður fjölmargra einstaklinga í sjálfboðavinnu verður seint fullþakkað. Ótalin er hin góða samvinna stjórnar Golfklúbbs Öndverðarness sem hefur haft frumkvæði í gegn um tíðina að mörgum stórhuga verkefnum til að bæta enn frekar aðstöðu klúbbsins og félaga sveina og meistara þegar ráðist var í stórfelldar breytingar innanhúss í Öndverðarnesbæ 2004 þar sem hugsað var fyrir góðri aðstöðu fyrir staðarhaldara Öndverðarness og starfsmann Golfklúbbs Öndverðarness.
Hönnun framkvæmdanna var í höndum Inga Gunnars Þórðarsonar sem komið hefur að mörgum hönnunar verkefnum fyrir klúbbinn á liðnum árum.
Hægt væri að draga upp langan lista einstaklinga sem hafa staðið fyrir og komið að þessu mjög svo krefjandi verkefni og öðrum nauðsynlegum verkefnum til að bæta aðstöðuna sem eru gerð góð skil annarstaðar og verður ekki endurtekið hér.
Öndverðarnesið hefur verið unaðsreitur og sífelld uppspretta góðra stunda.
Fv. form. Múrarafélags Reykjavíkur.
Helgi Steinar Karlsson