Sögur frá byggingu gamla skálans 1977
Bjössi Sig gjaldkeri til margra ára var alltaf að hugsa. Einu sinni var hann uppi á þaki á nýja skálanum mjög hugsi, hann var svo hugsi að hann gekk fram af þakinu án þess að verða var við það og varð ekki meint af.
Einu sinni voru menn við vinnu uppi á þakinu - datt þá hamarinn af þakinu niður á höfuðið Þórði Þórðarsyni, formann meistarafélagsins. Þá sagði Friðrik varaformaður, „er ég þá orðinn formaður“.
Allt timbur í skálann frá Þórði Þórðarsyni múrarameistara og Þórði Kristjánssyni byggingameistara, nema:
Sperrurnar kostuðu Friðrik varaformann ávísanaheftið hjá meistarafélaginu. Hann borgaði nefnilega sperrurnar hjá Byko með vitlausu tékkhefti og þá var heftið tekið af honum.
Allar innréttingar í gamla skálnum voru smíðaðar hjá Ása og Mjöll í Aratúni.
Þegar byrjað var að grafa fyrir burðarsúlum undir skálann og steypa þær, var það gert snemma vors daginn eftir árshátíð múraranna á Hótel Sögu í Súlnasal.
Skálinn var síðan byggður upp og fór skálinn strax að halla og skekkjast allur til. Rúður brotnuðu ofl. Þeir höfðu nefnilega grafið fyrir súlunum niður á klaka (héldu að væri fast) og þegar klakinn bráðnaði um vorið þá sökk allt og fór á fleygiferð. Tjakka þurfti skálann upp til að rétta hann af og allt fór vel að lokum.
Múrararnir höfðu fengið gefins gler frá meistaranum sem Friðrik vann hjá. Gluggar voru smíðaðir eftir máli af glerinu. Friðrik og Ási fóru í bæinn til að sækja glerið. Karlinn lánaði þeim bíl og kerru til að flytja glerið austur. Vegurinn undir Ingólfsfjallinu var alveg ferlegur, ómalbikaður og eitt risa þvottabretti. Við Alviðru byrjuðu þeir að fagna því að hafa sloppið með glerið í gegn en þá leyndist síðasta holan þar sem þeir keyrðu ofan í og allt glerið brotnaði. Þá var farið í að breyta gluggunum og keyptar 2-3 rúður, svo voru smíðaðir minni gluggar úr brotunum.
Örn Ásmundsson hélt upp á 50 ára afmæli sitt í nýja golfskálanum árið 1992 sem var rúmlega fokheldur. Örn sem var einn okkar besti maður og sá um völlinn og skálann í mörg ár.
Í afmælisveislunni gerði hann sér lítið fyrir fimmtugur strákurinn og stóð á höndum uppi á stól meira að segja stólörmunum eins og hann hefði ekki gert neitt annað um ævina.
Mjöll segir svo frá, en hún kallaði Jason Ólafs og Hilmar Viðars strákana sína. Þeir voru betri í golfi heldur en karlarnir og máttu þess vegna ekki vera með í mótum. Það var líka mikill barningur fyrir konur að fá að vera með í mótum. Magga og Mjöll fóru á fund með Selfoss körlunum til að fá að taka þátt í móti. Þar voru Ægir, Árni og Ingólfur, miklir öðlingsmenn og vinir Öndverðarness. Þær fengu því framgengt að konur og unglingar fengu að taka þátt í fræga Þrastarlundarmótinu 1983. Það var vitlaust veður, hávaða rok, grenjandi rigning og þá máttu konur og unglingar vera með í mótinu sem var haldið á milli Selfoss og Öndverðarness. Þetta var Þrastarlundarmótið, haldið á Alviðru, þar sem spilaðar voru 9 holur og 9 holur í Öndverðarnesi. Konurnar sem reyktu þá og gátu varla haldið sígarettunum logandi vegna rigningarinnar, en þær kláruðu mótið því þær höfðu svo mikið fyrir því að fá að spila. Örn Ingólfs, Onni spilaði með gúmmíhönskum sem hann fékk lánað hjá Ása. Mjöll, Björk og Guðrún mættu í mótið en Ási lá bara heima í sófa í rólegheitum. Regngallarnir voru þunnir og blotnuðu strax. Veðrið var slíkt að spilað var í stígvélum. Jason vann mótið.