Uppbygging og þróun golfvallarins í Öndverðarnesi
1970 - 2024
Þetta byrjaði allt á matreiðslu með ástríðu eða dósum undan grænum baunum. Þúsundþjalasmiðurinn og múrarameistarinn Ástráður Þórðarson hafði komið sér upp sumarbústað í nýju landi múrarafélaganna í Öndverðarnesi og hóf uppbygginguna á golfvellinum með tómar dósir af grænum baunum einar að vopni. Hann setti til gamans niður 3 dósir á túninu við Öndverðarnesbæinn og sló flöt með handsláttuvél í kringum þær. Ástráður sem var liðtækur kylfingur í Golfklúbbi Reykjavíkur hafði fengið þar gefins afgangs stangir með flaggi til að setja í dósirnar. Boltinn var kominn af stað.
Fimm holu völlur
Fljótlega voru holurnar orðnar 5, sjá teikningu, og var þá strax tekið til við að leika á þeim 9 holu hring, þ.e. spilaðar voru fyrst 5 holur og síðan 4 fyrstu holurnar aftur.
Árið 1971 rissaði Ástráður Þórðarson upp legu á 5 holu golfvelli. Agnar Ástráðsson tæknifræðingur, sonur hans, var fenginn til að teikna golfvöllinn og var holunum þá strax breytt í 6 holu völl.
Fyrsti teigur var þar sem 7. brautin við skurðinn er núna og voru spilaðar tvær par 4 holur meðfram skurðinum og inn dalinn þar sem 8. braut er í dag, fyrst hægra megin við skurðinn og svo inn dalinn þar sem seinni hlutinn á 8. brautinni er núna. Þriðja brautin var á sama stað og núverandi þriðja braut og var hún par 3. Fjórða brautin var í sömu legu og 4. brautin í dag nema flötin var fyrir framan garðinn á núverandi flöt og nær 6. brautinni. Fimmta brautin lá á svipuðum stað og 7. brautin er í dag, en flötin var fyrir framan skurðinn.


Sex holur í níu holur
Það var ekki lengi staldrað við fimm og sex holu völlinn. Árið 1972 var Þorvaldur Ásgeirsson, golfkennari fenginn til að hanna níu holu golfvöll. Strax árið eftir var búið að leggja út fjórar holur í viðbót og völlurinn því orðinn níu holur.
Fyrsta árið var upphafsteigur við bílastæði rétt við núverandi 7. flöt og fór verðlaunaafhending í fyrstu mótunum fram á bílastæðinu. (Sjá teikningu af vellinum.) Fljótlega eftir að borað hafði verið eftir heitu vatni fyrir sundlaugina færðist1. teigur yfir á núverandi 4. teig og þá gat verðlaunaafhending farið fram í dæluskúr borholunnar sem var staðsettur við miðja þáverandi 9. braut og núverandi 3. braut.
Nú voru hlutirnir farnir að gerast hratt. Friðrik Andrésson, sá mikli atorkumaður var ráðinn á golfvöllinn sumarið 1972 og í apríl 1974 var Golfklúbbur Öndverðarness stofnaður formlega. Friðrik var formaður fyrstu þrjú árin og þá tók Gísli Dagsson við formennskunni næstu 26 árin.
Að öðrum ólöstuðum eru þessir tveir menn miklir örlagavaldar í uppbyggingu níu holu golfvallarins í Öndverðarnesi, ásamt Ásmundi Daníelssyni sem lagði fram ómælda þekkingu og vinnu við uppbyggingu vallarins fyrstu árin. Þessir kappar fengu frábæra liðsmenn með sér úr múrarastétt til að leggja fram sjálfboðavinnu. Meðal þeirra sem lögðu mikið af mörkum á þessum árum voru, Ástráður Þórðarson, Örn Ásmundsson, Björn Sigurðsson, Örn Ingólfsson, Einar Einarsson, Viðar Guðmundsson, Sigurbjörn Ásgeirsson, Kristján Haraldsson, Baldvin Haraldsson, Óli Kr., Þórður Þórðarson, Þórður Kristjánsson, Örn Karlsson og fl. og fl.
Nú hófst vinna við að þróa og byggja áfram upp níu holu golfvöllinn sem lagður hafði verið út af litlum efnum en með miklum áhuga og mikilli sjálfboðavinnu. Fyrstu árin voru svo til eingöngu tréteigar á brautum. Hægt og bítandi voru þeir fjarlægðir og byggðir upp litlir grasteigar. Menn mættu bara með skóflu og haka,síðan var grafið og efni fært til á staðnum.
Þegar hér var komið við sögu var búið að snúa vellinum þannig að fyrsti teigur var kominn þar sem 4. teigur er núna.
Nýr golfskáli og miklar breytingar á vellinum
Árið 1977 var skálinn við fyrsta teig byggður. Allt var unnið í sjálfboðavinnu og lögðu byggingameistararnir Þórður Þórðarson og Þórður Kristjánsson fram stóran hluta efnisins. Nú var golfklúbburinn loksins orðinn alvöru golfklúbbur. Öll mót á vellinum voru innanfélagsmót og boðsmót þar sem golfklúbburinn gekk ekki í GSÍ fyrr en 1998.
Miklar breytingar voru gerðar á legu vallarins næstu árin bæði varðandi flatir og teiga. Þáverandi 5. og 6. braut, sem lágu þar sem 8. braut liggur í dag, var breytt úr tveimur brautum, par 5 og par 4 í eina langa og glæsilega par fimm braut inn dalinn. Samhliða þessu var flötin á þáverandi 4. braut færð yfir skurðinn og er eins og hún er í dag á 7. braut.
Í kringum 1980 var lögð út ný 6. braut, 179 metra löng par 3 braut í sömu legu og núverandi 9. braut. Þáverandi 7. braut sem var par 3 braut í svipaðri legu og 1. braut í dag var breytt í par 4 braut fyrst með flötina aftan við núverandi 2. teig. Ekki löngu síðar var 7. brautinni breytt í 379 metra langa par 4 með núverandi teig á 1. braut og flötina efst í brekkunni fyrir framan núverandi flöt á 1.braut.
Núverandi 2. braut hefur lítið breyst í gegnum árin nema teigurinn sem var frekar lítill á upphafsárunum, hefur hann tvisvar verið stækkaður fyrst um miðjan níunda áratuginn og svo aftur í núverandi teig árið 2007. Þá þótti það sérstök aðgerð í kringum 1995 þegar flötin var tekin upp vegna mikils jarðhita undir henni og var hún einangruð með steinull og tyrft aftur yfir. Síðan hefur hún einatt verið ein besta flötin á vellinum.
9. brautin var lengi vel stutt par 4 braut eða um 230 metrar og var flötin við trén rétt við 100 metra fjarlægðamerkið á núverandi 3. braut. Á níunda áratugnum var brautin lengd og byggð upp ný flöt í því formi sem hún er í dag. Á árunum frá 1980 voru gerðar margar breytingar á upphaflegum flötum og teigum. Þar er helst til að nefna að þáverandi 2. flöt var byggð upp og tyrfð upp á nýtt. Þáverandi 5. flöt sem er núna 8. flöt var stækkuð um helming.
Margir frábærir starfsmenn golfklúbbsins komu að þessum breytingum ásamt ótrúlega öflugum hópi sjálfboðaliða. Meðal þeirra starfsmanna sem lengst stóðu vaktina var Örn Ásmundsson, ásamt Margréti Sigurðardóttur eiginkonu sinni.
Öndverðarnesvöllurinn sem verið hafði par 68 var stækkaður í par 70 árið 1994. Breyting var gerð á 6. brautinni og henni breytt úr par 3 í par 4 braut í svipaðri legu og hún er í dag.
Þessi uppsetning vallarins var í notkun í 14 ár með minniháttar breytingum og stækkunum á teigum og lagfæringum á flötum.
Í kringum aldamótin byrjaði vinna við að bæta flatirnar og var tekið upp samstarf við Golfklúbb Reykjavíkur. Starfsmenn GR sáu um sáningu, skurð, söndun og götun flata. GÖ sá um allan slátt. Flatirnar snar bötnuðu á þessum árum og komust í fyrsta flokk að margra mati.

Frumkvöðlarnir láta af störfum og nýir taka við
Upp úr aldamótum létu frumkvöðlarnir flestir af störfum og nýir tóku við. Þá kom inn í starfið Örn Karlsson, sem var formaður klúbbsins frá 2003-2007 og framkvæmdastjóri nokkur ár eftir það. Ólafur Jónsson, kom inn sem formaður vallarnefndar árin 2002 - 2014. Strax var tekið til við að breyta og stækka níu teiga á vellinum. Þá var samstarfið um faglega ráðgjöf við Golfklúbb Reykjavíkur eflt, enda hæg heimatökin, með Stefán Gunnarsson í vallarnefnd þar og Margeir Vilhjálmsson framkvæmdastjóra. Þeir voru vilhallir Öndverðarnesklúbbnum og lögðu fram mikla sérþekkingu og nútíma tæki til að bæta völlinn.
Örn Karlsson sem tekið hafði við formennsku af Gísla Dagssyni fól Guðmundi Hallsteinssyni, varaformanni klúbbsins og Ólafi Jónssyni, formanni vallarnefndar að hefja undirbúning að hönnun og uppbyggingu á níu holum til viðbótar og gera völlinn að góðum 18 holu golfvelli.
Fljótlega, eða snemma árs 2004 var haldinn hugarflugsfundur með klúbbfélögum og komust menn þar m.a. að þeirri niðurstöðu að það væri vel gerlegt að byggja aðrar 9 holur innan 20 ára. Þessi áætlun gekk þó hraðar og betur en bjartsýnustu menn höfðu áætlað. Eins og svo oft í Öndverðarnesinu þá voru menn röskir til verka og ósérhlífnir í sjálfboðavinnunni.



Úr níu holu velli í átján holur
Í bók Brynjólfs Ámundasonar, Safn til sögu Öndverðarness, kemur fram í ræðu Ólafs Jónssonar við opnun vallarins lýsing á því hvernig staðið var að verki.
“Ágætu félagar, vinir og aðrir góðir gestir.
Við Öndverðarnesbúar erum að upplifa stóra stund hér í dag þegar við opnum nýjan 18 holu golfvöll.
Það eru mörg handverkin á bak við þessa framkvæmd og stærsti hluti hennar hefur verið unnin í sjálfboðavinnu sem er að mínu mati stórkostlegt. Það er stórkostlegt að eiga enn til óeigingjarna félaga og vini sem eru til í að leggja hvað eina á sig gegn engu öðru gjaldi en ánægju og hamingju.
Nú langar mig að kalla fram nokkrar smámyndir úr byggingarsögu vallarins.
Þetta hófst á því að vetrarfólkið hér í Öndverðarnesinu kom saman á köldum laugardegi í febrúarmánuði árið 2004 og héldum einskonar hugarflugsfund um það hvað mætti færa til betri vegar í rekstri golfklúbbsins. Fundargerðin var löng sem og verkefnalistinn sem varð til. Öllum verkefnum var strax komið í farveg og bar einhver fundarmanna ábyrgð á hverju verkefni fyrir sig.
Stefna – Framtíðarsýn Golfklúbbs Öndverðarness
Að vera með frábæran golfvöll og starfsfólk sem veitir bestu þjónustu sem völ er á. Útivistarparadís allt árið.
5 ár
Æfingasvæði til að slá bolta og kúluvél, teikning af 9 holu velli, æfingagrín, hús fyrir starfsmann. Teigar og flatir í endanlegt horf. Bæta við 9 holum, undirbúningur. Stækkun á skálanum íbúðarhúsnæði, bílastæði og snyrta hér í kring. Aukin skógrækt og efling félagsanda klúbbmeðlima. Bæta göngustíga, gera skipulagt framtíðarplan. Hafa góðan völl og teikning af öðrum 18 holum og aðkoman. Laga aðkomuna að svæðinu og snyrting á vegkanti. Eitt heildarsvæði. Lagfæring á bænum. Bílastæðin mjög aðkallandi. Fyrirmyndar völl með góðum teigum og grínum. Aukin verði þekking á sviði golfumhirðu. Hækka gjöldin til að losna við þá sem ekki kunna golf.
50 ára leigusamningur um golfvallarsvæðið núverandi samningur frá ca. 1999. Lykillinn að því var að Guðmundur Hallsteinsson, formaður Múrarameistarafélagsins og Helgi Steinar Karlsson komu sér saman um að gera leigusamning við GÖ til 50 ára með samþykki Öndverðarnesnefndar og varð það til þess að hægt var að hefja framkvæmdir við stækkun vallarins strax og menn höfðu vilja til.
20 ár.
18 holu golfvöll og 9 holu æfingavöll, æfingasvæði. Alhliðar útivistarsvæði bæði vetur og sumar. Koma upp litlum húsum til útleigu við völlinn. 27 holu völlur, 5-7 starfsmenn og aðstaðan þannig að fólk vill koma hingað. Stærra klúbbhús. Starfsmaður allt árið til að sjá um allt svæðið með heilsársaðstöðu. Fyllilega sambærilegt við aðra hér í kring.
Það var nefnilega það. Það eru rúmlega fjögur ár síðan þetta var sett niður á blað og allt sem var á 5 ára tímaplani er orðið að veruleika og gott betur.
Fljótlega eftir þennan fund var ákveðið að kanna hvort Margeir Vilhjálmsson hefði áhuga á að teikna völlinn fyrir okkur. Eins og venjulega brást hann vel við og hófst handa við að kanna vallarlegu. Þann 30. júlí 2004 skilaði Margeir til okkar fyrstu tillögunum og í greinargerð sem fylgdi með var vallarstæðinu lýst svo:
Völlurinn verði í jafnvægi við þær níu holur sem fyrir eru. Lengd er ekki aðalmálið. Völlurinn er samt sem áður krefjandi og ætti að vera skemmtilegur fyrir alla kylfinga, sama hver getan er. Reynt að fella völlinn inn í landið, þannig að jarðrask við framkvæmdir verði sem minnst. 10 teigur er nálægt klúbbhúsi sem og 18. flöt þannig að völlurinn myndi tvær 9 holu lykkjur – gamla völlinn og svo þann nýja.
Lengdir á hverri braut eru áætlaðar. Lengd getur munað +/- 30 metrum og eru gulir teigar áætlaðir 5308m og rauðir 4350m (5263 og 4552). Þetta var sem sagt sumarið 2004 og þegar þarna var komið við sögu hittum við Ebbi, Margeir þar sem farið var yfir hugmyndir og breytingar á vallarlegunni sem og staðsetningu æfingasvæðisins. Margeir skilaði nýjum tillögum fljótlega og var sett vinna af stað upp úr áramótunum við að byggja upp flatirnar – boltinn var farinn að rúlla. Ég má til með að lesa úr fundargerð sem ég tók niður þegar við fórum austur í déskoti köldu veðri í janúar 2005.
Frumtillögur að 18 holu velli
Endanleg útfærsla á seinni 9 holunum
Fundargerð - Öndverðarnes
Stækkun golfvallar í 18 holur.
Laugardagur 22. janúar 2005.
Úttekt á vallarstæði.
Mættir: Ólafur Jónsson, Ingi Gunnar Þórðarson, Guðmundur Hallsteinsson, Margeir Vilhjálmsson, Ágúst Jensson.
Gerðar hafa verið tvær tillögur að níu holu viðbót við golfvöllinn í Öndverðarnesi.
Teikning sem lögð var fram í ágúst og var höfð til sýnis í golfskálanum.
Teikning sem gerð var í vetur, þar sem nýtt var framræst svæði og teknar í burtu þær brautir sem lágu í mýrinni.
Snjór var yfir fyrirhuguðu vallarstæði. Gerðar voru mælingar með laserkíki, til að sannreyna að lengdir á fyrirliggjandi teikningu stæðust, þar sem loftmynd sem notuð hafði verið var ekki með mælikvarða.
Niðurstaða:
Nægt landrými er fyrir 9 holur í viðbót í landinu. Auðveldara og ódýrara er að byggja völlinn skv. teikningu 2. Framræsta svæðið er samtals 300 x 250 metrar. Við mótun brautanna er nauðsynlegt að hylja skurði og staðsetja glompur á rétta staði til að gefa brautunum “karakter”.

Þemað í hönnun vallarins eins og hann er á teikningu 2 er eftirfarandi:
Af fimm teigum vallarins er mikið útsýni yfir allan völlinn. Þetta eru teigar nr. 10, 11, 12, 14, og 17. Teigar á 12.,14., og 17.braut standa á hæsta punkti vallarins og þaðan er útsýnið frábært. Þetta er ekki ólíkt því sem gerist á vellinum í dag, á teigum nr. 5 og 7. Holur sem liggja í hrauninu í átt að tjaldstæðinu geta orðið mjög fallegar og skemmtilegar sökum mikils hæðarmunar í landslagi.
Völlurinn er teiknaður sem par 35, en nú 2.630 metrar að lengd. Brautirnar raðast vel saman, þannig að aldrei eru leiknar tvær par 4 holur í röð.
18 holu völlurinn í heild sinni, verður því par 70, og 2.658m + 2.630m = 5.288 m.
Lengd vallarins af rauðum teigum verður um 83% af lengd hans á gulum, eða um 2.249m + 2.150m = 4.399m.
Á teikningunni sem lögð er fram á aðalfundi, er búið að afrita holur af gamla vellinum yfir á nýja svæðið og ætti hún því að gefa nokkuð ljósa mynd af því hvernig golfvöllur kemur til með að líta út á landinu.
Frá þessum tíma hefur í raun hver smásigurinn unnist. Þar ber helst að nefna að við fengum til liðs við okkur ýtusnillinginn Steindór Eiðsson, eða Steina ýtumann. Það var unun að vinna með honum þessi tvö sumur sem það tók að forma og fínmóta með honum flatir, brautir, teiga og glompur. Algengar spurningar frá Steina voru: Óli hvernig lúkkar þetta, er einhver kjallari í þessu, æ nei við verðum að fara aðeins yfir þetta aftur. Og þessi 15 tonna ýta var í höndunum á Steina eins og ég væri með hrífu í höndunum að raka saman gras og moldarkant slík var snyrtimennskan og virðingin við náttúrulega gróðurinn.
Ég vil að lokum sem formaður vallarnefndar þakka samstarfið við þessa vini mína.
Fyrst ber að nefna Ebba (Guðmund Hallsteinsson) en samstarf okkar við þessa uppbyggingu hefur alla tíð verið frábært og ósérhlífnin í sjálfboðavinnu einstök.
Þá er það Örn Karlsson, en völlurinn var byggður að mestu leyti í hans formannstíð. Fól hann okkur Ebba alveg að stjórna því verki en var í staðinn ötull við vinnu úti á velli við framkvæmdir eins og lagningu vökvunarkerfis.
Þá er það hann Margeir. Alltaf boðinn og búinn og kann golffræðin best af öllum á Íslandi.
Og svo er það hann Ingi Gunnar sem hefur alltaf verið tilbúinn að koma með mér í leiðinlegu verkin eins og að grjóthreinsa brautir þar sem maður sá engan árangur eftir margra daga vinnu.
Öllum öðrum sem lagt hafa hönd á plóg, þolinmóðum og dugmiklum mökum þakka ég einnig. Stjórnendum í meistarafélaginu og sveinafélaginu sem hafa verið mjög jákvæðir gagnvart þessari framkvæmd á alla vegu. Ég vil einnig þakka starfsfólki golfklúbbsins og síðast en ekki síst þeim aðilum sem lagt hafa okkur til það fjármagn sem þurfti til að brúa bilið milli rekstrartekna og aukaútgjalda við uppbyggingu vallarins.
Að lokum þakka ég konunni minni henni Kristínu fyrir að leyfa mér að verja sumarfríinu mínu síðustu 4 árin í að byggja upp nýja golfvöllinn hér.
Skál fyrir Golfklúbbi Öndverðarness.”
Átján holu völlurinn var tekinn í notkun árið 2008 eða 4 árum eftir að hugarflugs fundurinn átti sér stað. Fyrst í stað var 1. brautin leikin á nýja hlutanum, en uppröðun vallarins var breytt í núverandi mynd árið eftir.
Strax árið eftir að átján holu völlurinn var tekinn í notkun var haldið áfram að snyrta og fegra og bæta brautir og teiga. Helstu verkin sem ráðist var í var drenun á brautum nr. 10, 11, 12, 13 og 17.
Einnig var legu 16. brautarinnar breytt og hún gerð aðgengilegri, auk þess sem 14. brautin var breikkuð. Þá voru gerðar töluverðar endurbætur á 3. og 8. braut.
Á árunum frá 2009 - 2014 voru brautir 1, 5, 6 og 9 endurhannaðar og byggðar að hluta til upp að nýju.
Breytingar á gamla velli
Á árunum 2009 - 2010 voru gerðar miklar breytingar á legu 5. og 6. brautar. Fimmtu braut var breytt úr par 4 þar sem flötin stóð næstum í högglínu á 7. braut. Þarna var mikil slysahætta og var því tekin ákvörðun um að stytta 5. braut í par 3 og lengja 6. braut í par 4. Þessi ákvörðun mæltist almennt mjög vel fyrir á meðal klúbbmeðlima.
Það sama var síðan uppi á teningnum á 9. braut en staðan var orðin sú að högglangir spilarar gátu auðveldlega slegið inn á blinda flötina og skapaði það töluverða slysahættu. Legu brautarinnar var breytt þannig að hún var lengd um tæpa 30 metra og færð um 60 metra til vinstri auk þess sem tveimur brautarglompum var komið fyrir á lendingarsvæði högglangra kylfinga.
Á árinu 2013 var hafist handa við gagngerar breytingar á 1. brautinni sem var áður 379 metra löng par 4. Brautin var mjög erfið byrjunarhola þar sem flötin var blind og hélt illa boltum. Breytingarnar fólust í því að færa skurð fyrir framan teiginn til vinstri um 10 -15 metra og gera brautina þannig heilsteyptari í legu og ásýnd sem par 5 braut. Flötin var síðan færð aftur um 45 metra og náði alveg að árbökkum Hvítár.
Brautin breyttist úr því að vera ein erfiðasta byrjunarhola á Íslandi í það að verða ein sú aðgengilegasta.
Við lok þessara breytinga árið 2015 varð Öndverðarnesgolfvöllurinn par 71 eins og hann er í dag.


Breytingarnar og hönnunin á þessum 4 holum á fyrri 9 holum vallarins voru hannaðar af Ebba, formanni og Óla Jóns. formanni vallarnefndar. Örn Karlsson og Björn Ólason héldu utan um framkvæmdirnar og Steindór Einarsson stýrði ýtunni af gamalkunnri snilli.
Vinna og þróun síðustu ár
Brautirnar á Öndverðarnesvellinum eru að mestu eins í dag á afmælisárinu 2024. Á síðustu árum hefur staðið yfir vinna við að leggja út vökvunarkerfi á nýja völlinn og að hluta til á gamla vellinum. Sveinn og Ólafur Steindórssynir, vallarstjórar hafa borið hitann og þungann af þeirri framkvæmd. Vökvunarkerfið var keypt árið 2013 að tilstuðlan Jóhanns Óla Guðmundssonar og Guðmundar Hallsteinssonar. Jóhann hafði áður styrkt klúbbinn veglega með fjárframlögum til uppbyggingar golfvallarins á árunum 2005 - 2008.
Helstu breytingar sem unnið hefur verið að á síðustu árum eru að skurðir á 11. braut voru lagfærðir og röffið á 12. lagfært og mótað, auk þess sem skurðum í leiklínu var lokað. Tvær flatir á 4. og 6. braut voru endurbyggðar á tímabilinu. Tveir nýir teigar voru endurbyggðir á 8. braut auk fremri teigs á 5 braut. Níunda flöt verður væntanlega tekin í notkun á afmælisárinu eftir gagngerar endurbætur. Unnið hefur verið ötullega í að snyrta og betrumbæta ýmis svæði á golfbrautum og flötum. Þar má nefna svæði fyrir framan 4.,14. og 18. braut. Til stendur að gera tilraun með að slétta brautir og þannig að ekki þurfi að hreyfa bolta á braut.
Á afmælisárinu er verið að framkvæma merkilega tilraun á Öndverðarnesvelli sem felst í því að allur sláttur á vellinum verður róbótavæddur. Ef vel tekst til þá verður Golfklúbbur Öndverðarness í fremstu röð golfklúbba á Íslandi við að nota umhverfisvæna tækni til að viðhalda hirðingu golfvallar.
















