Upphaf starfsins


Einn af upphafsmönnunum  var Ástráður Þórðarson múrarmeistari. Hann fékk son sinn Agnar Ástráðsson tæknifræðing til þess að hanna 6 holu golfvöll. Fámennur hópur með Ástráð í fararbroddi  byrjuðu á að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd árið 1971. Fljótlega þótti völlurinn of lítill og þá var Þorvaldur Ásgeirsson golfkennari fenginn  til  að gera frumdrög að stækkun í 9 holur árið 1972.   Agnar Ástráðsson teiknaði síðan völlinn.  

Á þessum árum voru vélar og tæki til þess að vinna völlinn ekki til og því voru bændur í nágrenninu fengnir til þess að slá brautir en múrararnir sjálfir sáu um að slá flatirnar með litlum handsláttuvélum. Teigar voru smíðaðir úr timbri með gúmmímottum.

Fyrsta golfmótið var John Humphreys mótið sem haldið var í ágúst 1972. Mótið var sveitakeppni á milli meistara og sveina.  Sérstakar keppnisreglur sem Ástráður Þórðarson og Þórður Þórðarson undirrituðu. Ekkert klúbbhús var til þannig að verðlaunaafhendingin fór fram á bílastæði við golfvöllinn. Næstu mótum  var síðan slitið í dæluskúr sem hafði verið byggður yfir heitavatnsborholu við núverandi 3. braut. Skúrinn stóð þar sem stóru aspirnar þrjár standa nú. Skúrinn var 6 fermetrar að stærð og veitti hann gott skjól fyrir veðri og vindum. 

Árið 1972 réð Öndverðarnesnefndin Friðrik Andrésson til þess að sjá um völlinn og annað á svæðinu. Starfstímabil hans var frá 15. maí- 15. september.                    

Árið 1973 var áfram haldið að bæta og lagfæra golfvöllinn. Aðsókn manna að vellinum var  ótrúlega góð og mikill hugur í golfurum að nýta völlinn vel á næsta sumri.  Haldin voru fjögur golfmót á árinu sem þóttu takast vel: Umræða var farin af stað um að stofna golfklúbb félaganna í Öndverðarnesi. 

Stofnfundur golfklúbbsins var haldinn 9. apríl 1974 að Freyjugötu 27. Á dagskrá var að kjósa stjórn, samþykkja lög fyrir klúbbinn, ræða starfsemina og önnur mál. 

Fyrsti formaður klúbbsins var Friðrik Andrésson. Félagsgjöldin fyrsta árið voru 1000 kr. (fyrir myntbreytingu)

Fyrsta starfsárið 1974 voru í eftirtaldir í stjórn:

Formaður        Friðrik Andrésson

Ritari Gísli Dagsson  

Meðstjórnendur Ástráður Þórðarson

Kristján Ástráðsson

Hörður Þorgilsson

Jón Þórðarson

Bókhaldið var skráð í sjóðbók: 

Tekjur               35.741 kr.  

Gjöld              19.477 kr.

Hagnaður         16.264 kr.

Brynjólfur Ámundason og Björn Sigurðsson undirrituðu reikninga félagsins

Fljótlega eftir að Múrarameistarafélag Reykjavíkur og Múrarafélag Reykjavíkur festu kaup á Öndverðarnesinu 1968 komu fram hugmyndir um að byggja þar golfvöll. 

Í 70 ára afmælisriti Múrarafélagsins sagði Gísli Dagsson  að golfið hefði verið rökrétt framhald af því þegar menn voru búnir að reisa sér sumarhús í Öndverðarnesi og farnir að huga að tómstundaiðju á staðnum.  Þessi hugsun hefði verið áleitin 1971 með mönnum sem höfðu smitast af golfbakeríunni eins og Friðriki Andréssyni og Ástráði Þórðarsyni sem sló fyrsta grasblettinn á svæðinu.